131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Fsp. 5.

[15:32]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Úr Þjóðarbókhlöðu berast nú fréttir um uppsagnir starfsfólks. Við heyrum einnig af óánægju sem m.a. tengist þessu. Í hópi þeirra sem sagt hefur verið upp störfum er fólk sem á langan starfsaldur að baki, hefur jafnvel starfað lungann úr starfsævi sinni í þessari stofnun eða forverum hennar.

Það er erfitt og alvarlegt að missa atvinnuna, ekki síst fyrir fólk sem er komið yfir miðjan aldur. Erfiðast er að kyngja því ef fólk telur að þær forsendur sem uppsögnin byggir á séu ekki réttar og telur að hægt hefði verið að koma í veg fyrir hana ef öðruvísi hefði verið haldið á málum. Þetta lýtur að starfsfólkinu.

Hitt lýtur að stofnuninni og þeirri þjónustu sem hún veitir. Í Þjóðarbókhlöðunni er varðveittur mikilvægur hluti af menningararfi okkar. Þjóðarbókhlaðan sér þjóðinni fyrir mikilvægri þjónustu, námsfólki, stofnunum og sjálfstætt starfandi fræðimönnum. Við hljótum að taka alvarlega varnaðarorð frá tólf fræðimönnum í Morgunblaðinu á laugardag.

Það skiptir miklu máli hvernig að stofnuninni er búið. Í fréttum hefur komið fram að uppsagnirnar séu til komnar vegna fjárhagsþrenginga Þjóðarbókhlöðunnar. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. menntamálaráðherra hvort hún hafi kynnt sér hvað er að gerast í Þjóðarbókhlöðunni og það sem meira er, hvort og hvernig hún hyggst grípa í taumana.