131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Fsp. 5.

[15:34]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni varðandi það að mikilvægi Landsbókasafns – Háskólabókasafns er afar mikið og verður seint ofmetið. Það er eins og við þekkjum fagleg þekkingarveita um íslenskt samfélag og því er ætlað margvíslegt hlutverk, m.a. að safna öllu efni sem kemur út á íslensku til að það sé aðgengilegt fræðimönnum, ekki síst þeim er starfa innan Háskóla Íslands.

Ég vil geta þess, varðandi það sem hv. þingmaður kom inn á, að innan safnsins og hjá forstöðumönnum safnsins hafa verið teknar ákvarðanir í ljósi þess að ákveðnir fjárhagserfiðleikar komu upp í kjölfar þess að gerðir voru stofnanasamningar. Inn í þá samninga kom starfsmatið sem leiddi til að ákveðinn halli varð á rekstri stofnunarinnar upp á um 26 eða 27 millj. kr., ef ég man rétt, hæstv. forseti. Hann var ekki leiðréttur í hinum miðlægu samningum sem síðar voru gerðir.

Þarna myndaðist því halli út af stofnanasamningum. Samstarfsnefnd háskólastigsins fer með það vald að semja fyrir háskólana en í raun má segja að slíkir stofnanasamningar hafi ekki hentað nægilega vel þeim undirstofnunum sem falla undir Háskóla Íslands eins og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.

Það er rótin að fjárhagsvandanum sem hv. þingmaður kom inn á og ég er að reyna að útskýra. En það er alveg ljóst af orðum og skrifum í kjölfar þessa að forsvarsmenn safnsins taka með þessu á ákveðnum erfiðleikum. Þeir hafa sérstaklega undirstrikað að þessir tímabundnu fjárhagserfiðleikar muni í engu skaða hina mikilvægu starfsemi sem fram fer innan Landsbókasafnsins.