131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[15:50]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Frumvarp þetta er samið af nefnd sem dómsmálaráðherra skipaði hinn 1. júní 2004 til að ræða álitaefni er snerta lög um helgidagafrið, nr. 32 14. maí 1997. Nefndin var skipuð í tilefni umræðna sem hafa verið um þróun helgidagahalds, og þá sérstaklega um afgreiðslutíma verslana á hvítasunnudag. Nefndarmenn voru séra Kristján Valur Ingólfsson, tilnefndur af Biskupsstofu, Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, tilnefndur af þeim samtökum, og Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, og var hún jafnframt formaður nefndarinnar. Í frumvarpinu er lagt til að matvöruverslunum, sem uppfylla ákveðin skilyrði, verði heimilt að hafa opið föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag.

Lög um helgidagafrið frá 1997 komu í stað laga um almannafrið á helgidögum þjóðkirkjunnar, nr. 45 15. júní 1926. Í lögunum er starfsemi markaða og verslunarstarfsemi bönnuð föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag, sbr. b-lið 2. tölul. 4. gr. laganna. Undantekningar frá þessu banni má finna í 1. mgr. 5. gr. laganna, og voru það nýmæli. Þannig er heimil þessa daga starfsemi lyfjabúða, bensínstöðva, bifreiðastöðva, verslana á flugvöllum og fríhafnarsvæðum, blómaverslana, söluturna og myndbandaleigna, svo og gististarfsemi og tengd þjónusta, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna. Með þessu ákvæði var leitast við, samanber það sem fram kemur í greinargerð í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 32/1997, að koma til móts við það sjónarmið að unnt yrði að bjóða ferðamönnum ýmsa nauðsynlega þjónustu án tillits til helgidagafriðar. Markmiðið væri eingöngu að þjónustuaðilum yrði gert mögulegt að sinna ýmissi grunnþjónustu, þar með talið við ferðamenn, á þessum hátíðardögum. Ákvæðinu yrði ekki beitt til að hafa almennar verslanir eða þjónustustarfsemi opna þessa daga, svo sem matvöruverslanir, fataverslanir o.s.frv.

Verslunarrekstur er í örri þróun og verða skilin á milli einstakra tegunda verslana æ óskýrari. Þannig er matvara nú á boðstólum í bensínstöðvum og jafnvel blómabúðum og lyfjaverslanir selja varning af ýmsu tagi. Á landsbyggðinni eru þó nokkrir staðir þar sem margar tegundir verslunarstarfsemi sameinast undir einu þaki: Bensínstöð, matvöruverslun, söluturn og jafnvel myndbandaleiga. Þessar þjónustumiðstöðvar starfa í senn í þágu heimafólks og ferðamanna. Sömu ferðamenn geta hins vegar ekki keypt matvöru í verslunum í þéttbýli á umræddum helgidögum og gildir hið sama um heimafólk í þéttbýli. Ljóst er að ekki ríkir við núverandi aðstæður jafnræði meðal þeirra sem bjóða til sölu matvöru eða vilja kaupa hana og miðar frumvarpið að því að hindra að aðsetur verslana eða þjónustumiðstöðva leiði til þessa ójafnræðis. Frumvarpið raskar á engan hátt meginreglu laga um helgidagafrið. Markmið þess er einungis að jafna stöðu þeirra sem selja og kaupa matvöru á fyrrnefndum helgidögum. Til að ná því markmiði eru þrjár leiðir: að banna sölu matvöru föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag; heimila alla verslunarstarfsemi á þessum dögum, eða leið frumvarpsins, að heimila verslunum, sem uppfylla tiltekin skilyrði, að selja matvöru án tillits til þess, hvar þær eru á landinu.

Af hálfu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er lögð rík áhersla á að ekki eigi að draga úr helgi hvítasunnudags og setja hann í annan flokk samkvæmt helgidagalöggjöfinni.

Kirkjuþing hefur fjallað um frumvarpið og gerir engar athugasemdir við það.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar.