131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[15:56]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég tel að hér sé um jákvætt frumvarp að ræða fyrir ferðaþjónustuna en það gengur út á að rýmka atvinnufrelsi á föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag. Óneitanlega fer maður þó að velta fyrir sér hvort það eigi að vera með lög af þessu tagi, hvort verslunareigendum eigi ekki að vera í sjálfsvald sett hvort þeir hafa opið eða ekki og hvort þessa löggjöf þurfi yfir höfuð, hvort hver og einn eigi ekki að ráða því hvort hann hafi opið eða ekki, sérstaklega í ljósi þess að alltaf er verið að rýmka í lögunum hvað má vera opið. Nú er talað um verslanir, 600 fermetra matvöruverslanir, og spurning hvort það verði ekki teygt og togað. Hver á að hafa eftirlit með því? Er til einhver listi yfir það hvaða verslanir eru 600 fermetrar og hverjar ekki?

Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að eftir að ítrekað hafi verið leitað eftir því hvaða verslanir féllu undir þann hóp sem verið væri að opna fyrir að mættu hafa opið á umræddum helgidögum kom í ljós að sá listi var ekki til. Ég tel jafnvel að hv. allsherjarnefnd ætti að stíga skrefið til fulls og velta því upp hvort ekki bæri einfaldlega að opna algjörlega fyrir alla atvinnustarfsemi á umræddum dögum.