131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Tollalög.

493. mál
[16:11]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra tollalaga sem er mál nr. 493 á þskj. 753, býsna þykk og mikil bók eins og sjá má. Þessu frumvarpi er ætlað að leysa af hólmi núgildandi tollalög, nr. 55/1987.

Á þeim tæpu 18 árum sem liðin eru frá gildistöku núgildandi tollalaga hafa miklar breytingar orðið á starfsumhverfi tollyfirvalda og allra þeirra sem sækja þurfa þjónustu til þeirra. Því hefur um nokkurt skeið verið talið nauðsynlegt að endurskoða þessi lög.

Þess er fyrst að geta að frá því að gildandi tollalög tóku gildi hefur rafrænni tollafgreiðslu verið komið á í áföngum. Með breytingum á tollalögum 1996 markaði Alþingi þá stefnu að tölvuvæða öll samskipti vegna tollafgreiðslu fyrir árið 2000. Þeim áfanga var náð hinn 1. janúar 2001 þegar frestur aðila sem stunda inn- og útflutning í atvinnuskyni til þess að taka upp rafræna tollafgreiðslu rann út. Nú er svo komið að hefðbundin tollskýrsla á pappírsformi sem notuð hefur verið við tollheimtu og tolleftirlit um langan aldur hefur að mestu vikið fyrir tollskýrslum á rafrænu formi. Þessar breyttu aðstæður kalla á breyttar áherslur við tollheimtu og tolleftirlit.

Rafræn tollafgreiðsla hefur mætt kröfum atvinnulífsins til aukins hraða við tollafgreiðslu en reynsla síðustu ára hefur sýnt að atvinnulífið gerir ekki síður kröfur til aukins sveigjanleika við birgðahald og dreifingu innfluttra vara. Það er til hagsbóta fyrir atvinnulífið að innflytjendur geti geymt vörur á viðeigandi geymslusvæði, undirbúið þær til dreifingar og fengið þær tollafgreiddar að teknu tilliti til þarfa markaðarins hverju sinni. Með því móti ná innflytjendur að lágmarka kostnað við birgðahald og dreifingu vöru.

Við endurskoðun tollalaga hefur verið miðað að því að færa ákvæði laganna til samræmis við þessa þróun undanfarinna ára. Við endurskoðunina var lögð rík áhersla á að vöruviðskipti á milli Íslands og annarra ríkja verði sem greiðust en um leið verði búið svo um hnútana að tollstjórar geti sinnt hlutverki sínu við tollheimtu og tolleftirlit. Það er mikilvægt frá sjónarhóli tollheimtu og tolleftirlits að réttindi og skyldur allra þeirra sem koma að tollframkvæmdinni með einum eða öðrum hætti verði sett fram á skýrari hátt en nú er gert í tollalögum. Þess var gætt við endurskoðunina að öllum vafa um réttindi og skyldur innflytjenda og útflytjenda og umboðsmanna þeirra væri eytt.

Einnig eru ákvæði um réttindi og skyldur þeirra sem hljóta leyfi til þess að reka geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur sett fram með gleggri hætti en í gildandi tollalögum. Þá er hlutverk tollstjóra skýrt nánar og þeim veittar heimildir til tolleftirlits að teknu tilliti til aðstæðna við tölvuvædda tollafgreiðslu og aukins sveigjanleika við vörslu ótollafgreiddra vara.

Aukin áhersla er lögð á áhættugreiningu við tolleftirlit, þar með talið tollendurskoðun, samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Í þessu sambandi skal þess getið að frá því að gildandi tollalög tóku gildi hefur hlutfall tolla af skatttekjum ríkissjóðs farið lækkandi. Ákvæði núgildandi tollalaga voru sniðin að því ástandi að hlutfall tolla af skatttekjum ríkissjóðs var mun hærra en nú er og því er mikil áhersla lögð á beint eftirlit með innfluttum vörum í núgildandi lögum.

Í frumvarpinu er hins vegar fremur lögð áhersla á tolleftirlit á grundvelli áhættugreiningar með viðeigandi úrtaksathugunum, bæði til þess að tryggja rétta innheimtu aðflutningsgjalda og eftirlit með því að ólöglegur varningur berist ekki til landsins.

Frumvarp til tollalaga var lagt fram til kynningar á síðasta vorþingi. Að lokinni framlagningu var frumvarpið sent til umsagnar hjá viðeigandi stjórnvöldum og hagsmunaaðilum. Umtalsverð vinna hefur farið fram við að yfirfæra þær athugasemdir sem bárust. Í því frumvarpi sem ég mæli nú fyrir hefur verið tekið tillit til málefnalegra athugasemda að svo miklu leyti sem kostur er. Helsta breytingin lýtur að skiptingu landsins í tollumdæmi. Í þessu frumvarpi er horfið frá fækkun tollumdæma og lagt til að afmörkun umdæmanna verði óbreytt frá gildandi lögum. Komi til breytinga á skipulagi lögreglustjórnar á landsvísu er hins vegar óhjákvæmilegt að taka skipan tollumdæmanna til endurskoðunar.

Í frumvarpinu sem lagt var fyrir síðastliðið vor var hlutverk tollyfirvalda við rannsókn refsiverðra tollalagabrota og tengdra sérrefsilagabrota aukið með það að markmiði að tollstjórar annist að meginstefnu til rannsókn slíkra brota. Í þessu frumvarpi er fallið frá þeirri tillögu og miðað við að þau ákvæði sem þetta varða og nú eru í gildi haldist óbreytt. Á hinn bóginn er talið brýnt að skilgreina nánar mörk tolleftirlits og tollrannsóknar þannig að sérhæfing tollgæslu nýtist sem allra best. Stefnt er að því að setja á fót sérstakan starfshóp til að fara nánar yfir þessi mál á allra næstu vikum.

Ég mun nú, virðulegi forseti, greina efnislega frá helstu breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir miðað við núgildandi löggjöf.

Í X. kafla frumvarpsins er hlutverk tollstjóra skilgreint með ítarlegri hætti en gert er í núgildandi tollalögum.

Hlutverk tollstjóra er skilgreint í 42. gr. frumvarpsins.

Í 43. gr. þess er tollstjóranum í Reykjavík falin aukin ábyrgð á nokkrum sviðum vegna þeirrar sérhæfingar sem er til staðar hjá embættinu.

Lagt er til að tollstjórinn í Reykjavík hafi áframhaldandi með höndum þróun og rekstur tölvu- og upplýsingakerfa sem notuð eru við tollafgreiðslu og tolleftirlit og starfrækslu Tollskóla ríkisins. Jafnframt er lagt til að tollstjóranum í Reykjavík verði falin afgreiðsla bindandi álita um tollflokkun vöru, tollendurskoðun á landsvísu, auk áhættugreiningar og gerð eftirlitsáætlunar fyrir landið allt. Þetta eru allt verkefni sem krefjast mikillar sérhæfingar. Þess vegna er lagt til að slík verkefni verði á hendi þess tollstjóra sem hefur á að skipa sérhæfðasta starfsliðinu.

Þá er gert ráð fyrir að tollstjórinn í Reykjavík gegni leiðbeiningarhlutverki gagnvart öðrum tollstjórum, sem og inn- og útflytjendum og öðrum sem senda tollyfirvöldum upplýsingar með rafrænum hætti, m.a. með útgáfu verklagsreglna.

Í XI. kafla frumvarpsins er tekið upp nýtt hugtak, hugtakið tollmiðlari, yfir þá aðila sem taka að sér í atvinnuskyni að koma fram gagnvart tollyfirvöldum fyrir hönd inn- og útflytjenda. Með tilkomu rafrænnar tollafgreiðslu hefur starfsemi umboðsmanna inn- og útflytjenda aukist verulega og gegna þeir veigamiklu hlutverki við tollmeðferð vöru. Þess vegna er lagt til að starfsemi þeirra verði gerð leyfisskyld og kveðið verði á um réttindi þeirra og skyldur með skýrum hætti í tollalögum. Meðal annars er tollmiðlara gert skylt að kalla eftir þeim fylgigögnum frá inn- og útflytjendum sem eiga að liggja til grundvallar tollafgreiðslu vöru og leggja sjálfstætt mat á það hvort þær upplýsingar sem þar koma fram séu réttar. Enn fremur ber honum að gæta að því að fram komi allar þær upplýsingar sem eiga að koma fram vegna tollafgreiðslunnar.

Í XIII. kafla frumvarpsins eru veigamikil ákvæði um geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur og skyld atriði. Uppbyggingu kaflans er hagað með þeim hætti að fyrst eru sett fram yfirlit yfir þau geymslusvæði sem um er fjallað í kaflanum. Í kjölfar þess yfirlits fylgja almenn ákvæði sem eiga í grundvallaratriðum við öll geymslusvæðin, svo sem ákvæði um meðferð vara á geymslusvæðum, þar með talið geymslutíma, vörsluábyrgð rekstraraðila geymslusvæðis og vöntun og umframbirgðir á geymslusvæðum.

Hugtakið vörsluábyrgð kemur ekki fyrir í núgildandi tollalögum, en það er lagt til að hugtakið verði leitt í lög sem samnefnari yfir skyldur þess sem hefur ótollafgreiddar vörur í sinni vörslu. Í kaflanum er einnig fjallað um formskilyrði fyrir yfirfærslu vörsluábyrgðar frá einum vörsluhafa til annars.

Á eftir almenna kaflanum koma síðan kaflar um einstök geymslusvæði. Þar er í fyrsta lagi sérákvæði um tollvörugeymslur. Lagt er til að ákvæði núgildandi laga um tollvörugeymslur verði felld brott og í stað þeirra komi ný efnisákvæði um slíkar geymslur.

Á undanförnum árum hafa verið gefin út fleiri leyfi til reksturs frísvæða en tollvörugeymslna. Það kemur til vegna þess að efnisreglur um frísvæði í gildandi lögum varðandi heimildir til aðvinnslu á geymslusvæði, geymslutíma og uppskiptingu sendinga í smærri einingar til dreifingar eftir þörfum markaðarins hverju sinni, henta þörfum atvinnulífsins mun betur en núgildandi ákvæði um tollvörugeymslur.

Í frumvarpi þessu er lagt til að sambærileg efnisákvæði verði sett um tollvörugeymslur og hugtakið tollvörugeymsla verði notað yfir geymslusvæði sem er hugsað til þess að mæta þörfum þorra innflytjenda.

Í frumvarpinu er hins vegar lagt til að hugtakið frísvæði verði eingöngu notað yfir afmarkað svæði þar sem heimilt er að nota ótollafgreiddar vörur til eiginlegrar iðnaðarframleiðslu líkt og til stóð þegar ákvæði um frísvæði voru fyrst leidd í lög árið 1987.

Að auki er í XIII. kafla frumvarpsins sérstakir undirkaflar um tollfrjálsar forðageymslur, afgreiðslugeymslur og tollfrjálsar verslanir.

Í 119. gr. frumvarpsins er tollstjóranum í Reykjavík falin tollendurskoðun á landinu öllu, en með tollendurskoðun er átt við þann þátt tolleftirlits sem tekur til hvers konar könnunar á réttmæti skila á aðflutningsgjöldum eftir álagningu þeirra. Áður en til rafrænnar tollafgreiðslu kom var tolleftirliti að mestu hagað þannig að farið var yfirtollskjöl vegna vörusendingar áður en heimild var veitt til innflutnings eða útflutnings hennar. Með tilkomu rafrænnar tollafgreiðslu fer tolleftirlitið í meginatriðum fram eftir tollafgreiðslu með svokallaðri tollendurskoðun, en í tollendurskoðun felst m.a. samanburður á upplýsingum sem tollstjórum eru veittar með rafrænum hætti við bókhaldsgögn, þar á meðal viðeigandi fylgigögn sem eiga að liggja til grundvallar skýrslugjöf til tollstjóra samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.

Rétt er að vísa til almenns ákvæði í 30. gr. frumvarpsins um upplýsingaskyldu innflytjenda í þessu sambandi. Í ákvæðinu er tollstjórum tryggð heimild til ótvíræðs aðgangs að gögnum tollskyldra aðila og aðgangs að starfsstöðvum þeirra og birgðageymslum. Þá er lagt til að tollstjóra verði veitt heimild til þess að taka skýrslur af hverjum þeim sem ætla má að geti gefið upplýsingar er máli skipta við tolleftirlit.

Í 119. gr. er jafnframt mælt fyrir um að lögregla skuli veita tollstjóranum nauðsynlega aðstoð í þágu tollendurskoðunar ef aðili færist undan afhendingu bókhaldsgagna.

Í XXII. kafla frumvarpsins eru lagðar til ýmsar breytingar á þeim kafla gildandi laga sem fjallar um refsiábyrgð, viðurlög og málsmeðferð. Öll refsiákvæði kaflans hafa að geyma sjálfstæðar verknaðarlýsingar sem marka refsinæmi verknaðar, auk annarra skilyrða refsiábyrgðar. Lögð er til grundvallar hefðbundin tilhögun saknæmisskilyrða þannig að flest afbrigðileg refsiákvæði í gildandi tollalögum eru látin víkja, t.d. öfug sönnunarbyrði og óskipt refsiábyrgð.

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta er afrakstur umfangsmikillar heildarendurskoðunar á tollalögunum. Hér hef ég drepið á helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu. Fjölmargar aðrar breytingar eru þar að sjálfsögðu einnig, en ég leyfi mér að vísa til umfjöllunar um efni þeirra í almennum athugasemdum við frumvarpið.

Legg ég til, herra forseti, að máli þessu verði að umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.