131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Tollalög.

493. mál
[16:25]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hreyfir hér mikilvægu máli. Vissulega skiptir það máli með hvaða hætti staðið er að því skipulagi til að tryggja sem besta nýtingu þess mannafla og þeirra fjármuna sem í það fara og til að tryggja sem mestan og bestan árangur til að koma í veg fyrir að smyglvarningur af ýmsu tagi, hefðbundinn en einnig fíkniefni, geti komist eftir krókaleiðum inni í landið vegna slælegs eftirlits.

Nú hef ég enga ástæðu til að halda að í þeim höfnum sem hv. þingmaður nefndi sé ástandið verra en annars staðar hvað þetta varðar. Ég minni á að í frumvarpinu sem við höfðum hér til kynningar í þinginu á síðastliðnu vori var gert ráð fyrir miklum breytingum á tollumdæmum, m.a. á umræddu svæði, en horfið er frá því að sinni í þessu frumvarpi. Það mál reyndist vera flóknara en fyrst var talið, m.a. vegna skiptingar landsins í sýslumannsumdæmi og þeirrar staðreyndar að sýslumenn eru tollstjórar að gildandi lögum a.m.k. Því er það mál má segja í ákveðinni biðstöðu. Það er engu slegið föstu um breytingar í því efni hvað þetta frumvarp varðar, en vakin er athygli á því eins og ég gerði í framsögu minni að verið er að huga að breyttu skipulagi varðandi lögreglustjórn í landinu sem er auðvitað náskylt málefni. Mér fyndist ekki óeðlilegt að huga að breytingum á skiptingu landsins í tollumdæmi í tengslum við slíkar breytingar ef einhverjar verða.

Hitt er annað mál að með bættum samgöngum er auðvitað einfaldara fyrir sýslumann þótt hann sé fjarri vettvangi eða viðkomandi tollhöfn að hafa eftirlit en kannski áður var.