131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Tollalög.

493. mál
[16:27]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem hæstv. fjármálaráðherra kom inn á að með breyttum samgöngum er þetta svæði orðið annað og öðruvísi yfirferðar. Hinu er þó ekki að leyna að upp hafa komið dæmi, að mér er tjáð, að tollstjóri eða sá sem sinnir tollembættisstörfum hafi beðið um aðstoð héðan úr Reykjavík og síðan fengið reikning vegna þeirrar vinnu tollvarða sem komu frá Reykjavík til að aðstoða menn við leit. Kom þá í ljós þegar reikningurinn barst frá tollstjóranum í Reykjavík til þessa tollumdæmis hér í næstu höfn að fjárhagur þess embættis lagðist nærri því í rúst.

Eins og við vitum og sjáum hvað hefur verið að gerast í fíkniefnaheiminum tel ég að full ástæða sé til að heildarsýn sé yfir þessar hafnir allar. Sérstaklega bendi ég á hve í Grundartangahöfn hafa orðið mikil umsvif sem önnur stærsta innflutningshöfn landsins, eins og ég sagði áðan með á þriðja hundrað skipaviðkomur á ári og náttúrlega óeðlilegt að einn tollvörður staðsettur í Borgarnesi fylgist með þessu öllu. Þess vegna eins og ég hjó eftir hjá hæstv. fjármálaráðherra verður þetta mál væntanlega tekið til skoðunar og ég tel að fyllsta ástæða sé til að þetta mál sé tekið til gaumgæfilegrar endurskoðunar og athugunar eins og nú er verið að gera með hinn lagalega bálk tollheimtunnar.