131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[16:31]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Árið 2003 var ákveðið að hætta við að aflétta friðun á rjúpu frá og með árinu 2003 til og með árinu 2005 vegna bágs ástands stofnsins. Ákvörðunin var tekin í samræmi við 17. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, en samkvæmt lögunum er aðalreglan sú að þau dýr sem undir lögin falla njóta friðunar nema henni sé aflétt eins og heimilt er í vissum tilvikum, m.a. þegar rjúpa á í hlut. Samkvæmt 17. gr. laganna er heimilt að aflétta friðun á rjúpu frá og með 15. október til og með 22. desember ár hvert. Í framhaldi af áðurnefndri ákvörðun varð mikil umræða í þjóðfélaginu og skiptar skoðanir. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja það frekar hér enda er mönnum sú umræða í fersku minni.

Við talningu rjúpu vorið 2004 kom fram að stofninn hefur tvöfaldast á milli áranna 2003 og 2004, sem bendir til þess að hann sé í töluverðri uppsveiflu og að mögulegt kunni að vera að leyfa takmarkaðar veiðar í framtíðinni. Það verður hins vegar ekki gert nema með því að koma á enn markvissari stjórn veiðanna en tíðkast hefur til þessa og til þess þarf lagabreytingar.

Síðastliðið haust ákvað ég að leggja fram á yfirstandandi þingi frumvarp í því skyni að styrkja stjórn rjúpnaveiða á grundvelli þess að möguleikar gefist til veiða þegar á hausti komanda og var það gert í ljósi niðurstöðu talninga Náttúrufræðistofnunar á sl. ári. Mikilvægt er að tryggja að rjúpnaveiðar verði sjálfbærar þegar þær hefjast á ný og að ekki þurfi að grípa til tímabundinnar friðunar í framtíðinni.

Í framhaldi af þeirri ákvörðun fól ég svokallaðri rjúpnanefnd að semja frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar umhverfisráðuneytisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Fuglaverndarfélags Íslands, Skotveiðifélags Íslands og Bændasamtaka Íslands. Nefndinni var sérstaklega falið að líta til tiltekinna þátta, þ.e. heimildar til að banna sölu rjúpna og rjúpnaafurða, heimildar til að kvótabinda rjúpnaveiðar, takmörkun á notkun farartækja og hugsanlegar breytingar á veiðitíma, þ.e. upphaf og lok hans. Nefndinni var jafnframt falið að haga störfum sínum þannig að nýtt stjórnkerfi rjúpnaveiða gæti verið fyrirmynd að stjórn veiða á öðrum fuglastofnum eftir því sem aðstæður krefðust.

Nefndin skilaði tillögum sínum um lagabreytingar til ráðuneytisins í nóvember sl. þar sem farið var yfir áðurnefnda þætti og fleiri sem til greina kæmu í tengslum við stjórn á veiðum.

Frumvarp það sem hér er til umræðu byggist í megindráttum á tillögum nefndarinnar að því frátöldu að ekki er að svo stöddu lagt til að heimilt verði að setja kvóta á fuglaveiðar eins og nefndin lagði til, enda ekki talin þörf á slíkri heimild nema í ljós komi að aðrar aðgerðir sem lagðar eru til í frumvarpi þessu séu ekki nægjanlegar. Það bíður því síðari tíma ef á þarf að halda sem vonandi verður ekki.

Í frumvarpinu er lagt til að til þess að takmarka veiðisókn í fuglastofna, sem ákveðið er að létta friðun af samkvæmt áðurnefndum lögum, verði umhverfisráðherra heimilt í reglugerð að draga úr veiðisókn með sölubanni og sóknarstýringu. Sölubannið gæti þannig tekið til tiltekins tíma t.d. þegar viðkomandi stofn er í lágmarki vegna náttúrulegra sveiflna.

Margoft hefur komið fram að helmingur af þeirri rjúpu sem veidd er falli undir svokallaða magnveiði, þ.e. sé einkum til sölu á almennum markaði. Nefndin taldi ekki ástæðu til að leggja til breytingar á upphafi eða lokum veiðitíma, enda ríki góð sátt um veiðitímann, en lagt er til svo ekkert fari á milli mála að ráðherra fái ótvíræðar heimildir til að ákveða hvaða daga megi veiða innan veiðitímans og jafnframt að takmarka megi veiðar við ákveðinn tíma sólarhrings.

Rjúpnanefndin taldi ekki heldur ástæðu til þess að fjalla sérstaklega um þau farartæki sem nota má við veiðar þar sem ákvæði náttúruverndarlaga séu nægjanlega skýr. Rétt þykir þó að leyfa notkun tiltekinna vélknúinna farartækja á landi til að komast á veiðilendur svo framarlega sem ekki sé um að ræða vélsleða, fjórhjól og annan sambærilegan búnað, þ.e. torfærutæki, og þá að sjálfsögðu á merktum vegarslóðum og vegum. Samkvæmt gildandi lögum nær bannið eingöngu til vélsleða og fjórhjóla en komin eru á markaðinn sambærileg torfærutæki og er lagt til að lögin nái einnig yfir þau.

Nái frumvarpið fram að ganga á þessu þingi er ætlunin að rjúpnaveiðar hefjist í haust komi ekkert óvænt fram um ástand rjúpnastofnsins við talningar í vor. Þetta hefði í för með sér að bann við rjúpnaveiðum stæði í tvö ár en ekki í þrjú. Rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands á rjúpnastofninum samkvæmt samþykktri rannsóknaráætlun munu óháð þessu standa yfir til og með 2007. Að þeim loknum ættu umhverfisyfirvöld að vera betur í stakk búin til þess að taka ákvarðanir um framhaldið.

Ég vil einnig nefna að rjúpnanefnd umhverfisráðuneytisins fjallaði auk áðurnefndra þátta um griðlönd, skotvopn, veiðihunda og innflutning á villibráð. Niðurstaða nefndarinnar er sú að ekki sé ástæða til þess að taka sérstaklega á þessum þáttum þar sem ákvæði laganna, sbr. 18. gr., væru nægjanlega rúm til að kveða á um friðun, varp og vetrarstöðvar villtra fugla og ákvæði vopnalaga taka á skotvopnum. Nefndin taldi ekki ástæðu til að banna notkun hunda við veiðar, enda ljóst að svokallaðir sækjar, þ.e. hundar sem ætlað er að ná í bráð, minnka líkurnar á því að særð bráð finnist ekki. Auk þess er samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum meðalveiði þeirra sem nota hunda svipuð og þeirra sem ekki nota þá, eða um 3–5 rjúpur á dag.

Hvað varðar innflutning á fuglum og bann við honum telur nefndin vandséð að lög sem eiga að vernda villt dýr í íslenskri náttúru eigi að taka á slíkum þáttum, enda eigi að vera tryggt að settum reglum sé fylgt, svo sem um sýkingavarnir og merkingar jafnvel þó óheimilt sé að veiða slíka bráð hér á landi. Hér sé einfaldlega um matvælainnflutning að ræða sem lýtur tilteknum reglum varðandi merkingar, sýkingavarnir og fleira.

Að lokum vil ég árétta að frumvarpið eins og það liggur fyrir hér tekur ekki aðeins á rjúpu og stjórnun rjúpnaveiða heldur til allra fugla sem heimilt er að aflétta friðun af samkvæmt heimild í áðurnefndum lögum, sé sú heimild nýtt.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. umhverfisnefndar að lokinni 1. umr.