131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[16:41]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að við erum komin með frumvarp, svokallað rjúpumál, eftir þær deilur sem áttu sér stað þegar rjúpnaveiðibannið var sett á. Ég geri mér grein fyrir því að ráðherra er að koma með eins konar sáttatillögu.

Mig langar að koma með fyrirspurn varðandi það að draga úr veiðisókn og vera með sölubann eða sóknarstýringu. Ég sé að hér er fyrst og fremst getið um að takmarka veiðar miðað við ákveðna daga, ákveðinn tíma sólarhrings ef ekki er talið unnt að leyfa ótakmarkaða veiði innan tímamarkanna sem tilskilin eru. Ég vil spyrja um það af því það var talsvert rætt þegar verið var að setja bannið á að það væri mjög erfitt að takmarka veiðar, sérstaklega að takmarka fjölda rjúpna af því þetta kallaði á mjög beinskeitt eftirlit í okkar stóra landi. Menn töluðu um að hægt væri að vera með merkingar á rjúpu og annað slíkt. Hefur þetta verið skoðað? Hefur nefndin skilað einhverju varðandi takmörkun veiða annað en að setja í lög að ráðherra geti ákveðið daga eða tíma sólarhrings innan veiðitímabilsins?