131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[16:53]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er svolítið gaman að því að horfa yfir salinn og finna friðsemdarandrúmsloftið sem virðist ríkja yfir þessum fundi, líta til baka og rifja upp spennuna sem var yfir banninu þegar hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra ákvað að grípa til þess ráðs. Það var auðvitað mjög athyglisvert að þessi stjórnartillaga hafði ekki stuðning allra stjórnarliða á sínum tíma. Það voru miklar og heitar tilfinningar sem vöknuðu í málinu og í hverjum þingflokki voru skiptar skoðanir og eðli máls samkvæmt var hið svokallaða rjúpumál því ekki flokkspólitískt, það var mjög einstaklingsbundið hvernig menn brugðust við. Þannig var það í mínum flokki og þannig var það ekki síst í stóra stjórnarflokknum þar sem kom fram sérstakt þingmál með öllum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins innan borðs nema ráðherrunum, forseta þingsins og formanni umhverfisnefndar. Fannst mér frekar gaman að.

Þetta segir miklu meira um eðli málsins en e.t.v. flokksaga eða flokksviðbrögð. Þess vegna lít ég svo á að þegar ég bregst við þessu frumvarpi hér sé ég ekki að bregðast við í nafni flokks míns, heldur fyrst og fremst að bregðast örlítið við þeirri stöðu sem kom upp og af hverju við erum hér nú.

Ég er sjálf ekki í nokkrum vafa um að það var rétt að setja rjúpnaveiðibannið á. Ég er ekki í nokkrum vafa um að árangur varð af því og að þeir fræðimenn sem hafa bent á að það var nauðsynlegt að bregðast við höfðu rétt fyrir sér. Við erum núna að fá hér nýtt frumvarp inn á borð sem styttir friðunartímabilið einmitt af því að það náðist að framkvæma vissa björgunaraðgerð á þessum tíma.

Ég geri mér líka alveg grein fyrir því, virðulegi forseti, að eins og kom fram í ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur sem talaði á undan mér er auðvitað misjafnt hvernig fólk fer í veiðar og hvernig það beitir tækjum og tólum eða fer með hunda á svæðið í tilefni af því að hér á ekki að banna veiðar með hundum. Við getum ekki búið til lög og sett reglur ef við ætlum alltaf að horfa á það að hugsanlega sé hægt að virða lög og reglur að vettugi. Það er alveg sama hvar við berum niður. Við setjum lög og reglur af því að við teljum að þannig eigi að umgangast hvort heldur er náttúruna, umferðina eða hvað það er annað sem við erum að setja reglur um, um hvernig fólk hegðar sér í því að vinna í samfélagi, fá heimild til að nýta auðlindir náttúrunnar eða annað. Þess vegna er mikilvægt að reglur séu skýrar, að þær séu góðar og ekki ósanngjarnar. Svo er mjög mikilvægt að vera með þannig eftirlit að það sé ekki eins og fúsk út í loftið, að þeim sé ljóst sem nýta auðlindina eða eru með í samfélaginu að brugðist verði við ef menn fara ekki að reglum.

Þetta eru hin einföldu sannindi sem eiga við, hvort heldur er úti í náttúrunni eða annars staðar. Þess vegna er mjög mikilvægt að okkur sem setjum lögin takist að gera það þannig að sátt sé um. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að hér sé það lagfært að ekki sé bara verið að tala um vélsleða eða fjórhjól, heldur að þetta gildi um torfærutæki, þetta gildi um þau tæki sem er hægt að fara hratt yfir á og elta dýrið uppi, í þessu tilfelli fuglinn. Mér finnst það mikilvægt.

Mér finnst það líka skipta mjög miklu máli þó að það sé ekki komið inn í þetta frumvarp að nefndin muni starfa áfram og að tillögur muni koma um svæðisbundin griðlönd og/eða friðun á tilteknum svæðum eða tilteknum tímum.

Svo mikið lærðum við um þetta mál í vinnunni við það í umhverfisnefnd í fyrra að við vitum að landið allt er ekki bara eitthvað sem er eins. Við vitum líka að það er meira um fugl á einu svæði en öðru. Við vitum líka að fuglinn á erfitt uppdráttar á sumum svæðum. Það getur verið nauðsynlegt að skapa þær aðstæður að fuglinn fái frið á einu svæði þó að ekki sé verið að friða allt landið.

Þetta finnst mér skipta máli í umræðunni. Úr því að fram er komið sáttafrumvarp er mikilvægt að sem best sátt geti orðið um það. Við vorum ekki öll sammála, ekki einu sinni við fulltrúar Samfylkingarinnar í umhverfisnefndinni í fyrra, sum okkar vildu bara fara nákvæmlega leið þáverandi umhverfisráðherra meðan aðrir vildu fara aðra leið og fluttu tillögur um það. Þess vegna munum við að sjálfsögðu skoða málið mjög vel í umhverfisnefndinni og skoða hvort þarna hafi verið farin sú leið sem við öll teljum að sé góð og getum sæst á. Auðvitað þarf í máli eins og þessu að muna að ekki geta allir fengið viljann sinn fram. Ef maður er að reyna að ná fram sátt þurfa sem flestir að láta af sínu og skoða hvað hægt sé að sameinast um í ljósi þess að það verður að reyna að stíga skref til þess að koma til móts við sjónarmið sem flestra. Þannig ætla ég að vinna í málinu, virðulegi forseti.