131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[18:11]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir fór í gegnum söguna. Það er þá ágætt að ég rifji upp söguna kannski frá öðrum sjónarhóli og sjónarhóli eins og margir veiðimenn upplifðu þá sögu en það var á allt annan hátt.

Fyrst var farið fram á sölubann. Síðan var næsta skref þáverandi umhverfisráðherra eða Náttúrufræðistofnunar til að ná fram sama árangri og sölubann, fimm ára veiðibann. Það sjá náttúrlega allir að þetta er bara þvílík della. Síðan var einhver sátt um þriggja ára veiðibann sem núverandi hæstv. umhverfisráðherra er með þessu ágæta frumvarpi að lagfæra. Þetta er málflutningurinn. Það er sölubannið. Fyrst það náðist ekki í gegn er í einhverri gremju farið í fimm ára veiðibann til að ná fram sömu markmiðum. Þetta er náttúrlega með ólíkindum.

Þegar verið er að vitna í okkar færustu fuglafræðinga þá var það nú svo að ýmsir fuglafræðingar, m.a. Arnþór Garðarsson prófessor, voru gáttaðir á þessu veiðibanni. Enda er nú verið að endurskoða það, þetta þriggja ára veiðibann.

Það er annað. Þegar verið er að tala um að menn tortryggi Náttúrufræðistofnun — vísindi ganga náttúrlega út á gagnrýna hugsun og tekist er á um sjónarmið. Það er eðlilegur hlutur að vinnubrögð séu gagnrýnd eins og þegar Náttúrufræðistofnun er með línurit þar sem hún reiknar út rjúpnastofninn, ekki eitt ár fram í tímann, ekki tvö og ekki fimm, heldur heil 40 ár fram í tímann. Það ættu allir að sjá að þetta stenst ekki.