131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[18:31]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka mjög góða og málefnalega umræðu sem hefur farið fram. Það er alveg ljóst að málið hreyfir við mörgum hv. þingmönnum og þeir hafa gert mörg ákvæði laganna að umtalsefni sem ekki er verið að breyta með frumvarpinu. Það er því ljóst að þingmönnum er mjög umhugað um fuglalíf hér á landi.

Ég vil benda sérstaklega á að sl. vor var til umfjöllunar á þinginu náttúruverndaráætlun fyrir árin 2004–2008, sú fyrsta sinnar tegundar. Í þá áætlun var einmitt verið að festa friðun búsvæða fugla sem ég tel vera mjög merkilegar tillögur.

Markmiðið með frumvarpinu er fyrst og fremst að tryggja að rjúpnaveiðar verði sjálfbærar og að ekki verði gengið á rjúpnastofninn með veiðum. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að um svokallað sölubann geta verið skiptar skoðanir og ýmsir þingmenn hafa lýst efasemdum um það. En hvað snertir atvinnufrelsi stjórnarskrárinnar sem hv. síðasti ræðumaður nefndi tel ég algerlega ljóst að það eru almannahagsmunir í húfi að við getum áfram haft þennan ágæta fugl í landinu og nytjað hann með skynsamlegum hætti og að við gætum þess að rjúpan sé ekki í útrýmingarhættu. Það er það sem verið er að gera með frumvarpinu.

Menn mega t.d. ekki skjóta örn þó hann gangi í varp t.d. hjá æðarbændum, svo við reisum ýmsar skorður þegar almannahagsmunir eru í húfi hvað snertir veiðar á villtum fuglum.

Margar góðar ábendingar hafa komið fram við umræðuna sem ég veit að hv. umhverfisnefnd mun taka til skoðunar og ég treysti því að þar verði málið skoðað mjög grannt. Mér þykir líka mjög gott að finna að sú sáttatillaga sem felst í því að setja strangari reglur um veiðarnar og að það megi, ef talning á rjúpunni gefur tilefni til í sumar, aflétta friðun næsta haust. Mér þykir gott að heyra að það sé þokkaleg sátt um það þó auðvitað hafi líka komið þingmenn í ræðustól í dag og lýst því að þeir vildu hafa friðunina í þrjú ár.

Spurt var um veiðitímann og það er hárréttur skilningur að það verður auðvitað áfram þannig að ráðherra getur takmarkað veiðitímann eins og er í 17. gr. laganna. Varðandi verndarsvæðin, og þá vísa ég í 18. gr. gildandi laga, er rjúpnanefndin að vinna tillögur áfram um griðlönd og svæðisbundna friðun og þeim verður væntanlega skilað í vor. Mjög margir hafa rætt sölubannið og það er alveg hárréttur skilningur að heimildinni er ætlað að gilda yfir veiðar á öllum villtum fuglum þannig að það er ekki eingöngu um það að ræða að verið sé að veita heimild til sölubanns á rjúpum.

Hvað snertir grágæsina sem var nefnd fyrr í dag þá hefur engin tillaga komið inn á mitt borð um að setja sölubann á grágæs og engin slík áform eru uppi. En ég mun nota sölubannsheimildina á rjúpu ef frumvarpið verður að lögum í vor og veiðarnar hefjast í haust.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa orðin fleiri en ítreka þakkir mínar til þingmanna fyrir mjög góðar umræður.