131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[18:40]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að enginn misskilji orð mín með þeim hætti að ég sé að reyna að mæla því bót að það sé engin stjórn á veiðum, alls ekki. Ég hef einmitt mikinn áhuga á því að það sé stjórn á veiðunum og að reglur séu virtar á hverjum tíma, en mér finnst að það eigi að setja reglurnar af ákveðinni sanngirni. Hér var verið að tala um magnveiðimenn, að magnveiðimenn hafi veitt svo og svo mikið af rjúpu þegar veiðar voru algerlega frjálsar ef svo má segja. Það mætti hugsa sér að komið yrði í veg fyrir slíka magnveiði að verulegum hluta, t.d. með því að úthluta hverjum og einum veiðimanni ákveðið marga daga sem hann gæti notað til veiða á tilteknum veiðitímabilum, mánuðum eða eitthvað þess háttar. Það eru til ótal útfærsluaðferðir til þess að stýra veiðum. Það er hægt að finna upp á mörgu þar. Eins og ég segi þá tel ég að það sé markleysa að setja á þetta sölubann.

Ég hygg að siðferðisstandardinn hjá veiðimönnum á Íslandi sé tiltölulega hár og að það séu ekki margir veiðimenn sem mundu misnota þær reglur sem yrðu settar, ég tala nú ekki um ef þær reglur eru sanngjarnar og skynsamlegar. Ég sé ekki skynsemina sem falin er í sölubanninu og tel að aðrar aðferðir væru miklu vænlegri til árangurs. Þetta er álitamál og ég hef í sjálfu sér skilning á því en ég hef sagt mína skoðun.