131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:32]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Á yfirstandandi vetri hafa fimm fundir verið haldnir í landbúnaðarnefnd, þar af var á dagskrá eins kjör formanns og varaformanns og annar fundur fór til heimsóknar í landbúnaðarráðuneytið. Eins og nú stendur hafa fjórir fyrirhugaðir fundir í röð verið felldir niður og á næsta fundi sem boðaður er eftir viku er eingöngu á dagskrá mál tveggja sláturhúsa.

Á fundi í landbúnaðarráðuneytinu þann 19. október voru kynnt þingmál frá landbúnaðarráðuneytinu sem væntanleg eru á þessum vetri. Meðal þeirra eru stór mál, t.d. frumvarp til laga um breytingu á framleiðslu, sölu og verðlagningu á búvörum. Væntanlega er þar um að ræða samning við sauðfjárbændur. Svo eru breytingar á lögum um búnaðarfræðslu, um innflutning dýra og um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, um gæðamat á æðardúni og um lax- og silungsveiði.

Síðasta vetur var störfum landbúnaðarnefndar þannig varið að meiri hluta vetrar vorum við verkefnalítil í nefndinni enda engin mál til umfjöllunar frá ráðuneytinu. Undir vorið helltist yfir okkur hvert málið af öðru, stórir málaflokkar og þeirra á meðal nýr samningur við mjólkurframleiðendur til sjö ára og tilheyrandi milljarðaútgjöld. Um málin var fjallað í kapp við tímann, algjörlega að þarflausu ef betur hefði verið staðið að málum af hálfu ráðuneytisins. Ég undirstrika það, frú forseti, að ég tel ekki að við formann hv. landbúnaðarnefndar sé að sakast heldur við verkstjórn hæstv. landbúnaðarráðherra. Ég tel ekki að fjalla eigi um lagafrumvörp í tímaþröng ef annars er kostur enda höfum við vítin til að varast í þeim efnum.

Ég vek athygli á þessum starfsháttum til að hvetja til betri vinnubragða og ég minni á orð núverandi hæstv. landbúnaðarráðherra sem hann lét falla í tíð fyrirrennara síns, að í landbúnaðarráðuneyti gerðist allt með hraða snigilsins. Ég hélt satt að segja að núverandi hæstv. landbúnaðarráðherra teldi ekki lögmál að svo yrði að vera. Ég spyr því hvað tefji orminn langa svo mjög að komið sé fram á vorþing án þess að landbúnaðarnefnd fái mál til umfjöllunar frá ráðuneytinu.