131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:41]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég á sæti fyrir hönd míns flokks í landbúnaðarnefnd sem áheyrnarfulltrúi og ég hef furðað mig á því nú í vetur að fundir þar eru ærið sjaldgæfir. Ég hygg að það sé rétt að þeir hafi aðeins verið haldnir fimm sinnum. Ég tel þó eiginlega ekki rétt að vera að skammast í hæstv. landbúnaðarráðherra út af þessu því að ég veit ekki til að hann sé yfirmaður nefndarinnar og beri ábyrgð á henni. Hann er fulltrúi framkvæmdarvaldsins. Hins vegar hlýt ég að lýsa eftir formanni nefndarinnar, hv. þm. Drífu Hjartardóttur, í þingsal. Ég sé hana ekki hér. Hefur hún boðað fjarvist, forseti? (Gripið fram í.)

(Forseti (JóhS): Hv. þm. Drífa Hjartardóttir er ekki með fjarvistarleyfi.)

Hún er ekki með fjarvistarleyfi, gott og vel. Þessar nefndir, landbúnaðarnefnd og sjávarútvegsnefnd, atvinnumálanefndir þingsins, eru mjög mikilvægar. Þær eru ekki bara mikilvægar til að fjalla um frumvörp heldur líka til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald á hverjum tíma. Ég tel það mjög ámælisvert þegar fundir falla niður í þessum nefndum. Það er hægt að boða varamenn ef aðalmenn í nefndum geta ekki mætt. Hafi nefndirnar lítið fyrir stafni, þ.e. við það að fara yfir frumvörp og sinna þingmálum, geta þær tekið fyrir önnur mál sem varða þessa atvinnuvegi. Það er af nægu að taka til umræðu og fræðslu fyrir okkur þingmenn varðandi landbúnaðarmál og líka sjávarútvegsmál.

Ég gagnrýndi í heyranda hljóði nú nýlega einmitt hversu fáir fundir eru hjá sjávarútvegsnefnd. Ég hygg að þeir hafi heldur ekki verið nema fimm það sem af er vetri. Hv. formaður nefndarinnar, Guðjón Hjörleifsson alþingismaður, er í salnum og hann leiðréttir mig þá vonandi ef ég fer rangt með tölur í þessu sambandi.

Enn og aftur, þessar nefndir eru mikilvægar og þær eiga að halda fundi sína á sínum tilkynntu fundartímum. Það er engin afsökun fyrir því að fella niður fundi í fastanefndunum.