131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Stjórn fiskveiða.

362. mál
[14:18]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir málefnalega umræðu.

Varðandi fyrstu tvö atriðin er ekki um það að ræða að verið sé að gera neitt stífara með tvö veiðileyfi, því er fyrir séð annars staðar í lögunum. Og um dagabátana sem enn þá eru á dögum og stunda veiðar samkvæmt þeim, þá er gert ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði sem um það fjallar. Áætlunin á afla fyrir þessa báta, ég geri ráð fyrir að á næsta fiskveiðiári verði þessir bátar innan við tíu, þannig að ég held ekki að það hafi svo sem neina praktíska þýðingu að áætla sérstaklega fyrir þá.

Af hálfu ráðuneytisins er hvað varðar afla flottrollsskipanna í gangi vinna við að finna út úr því hvernig við getum best metið það hver meðaflinn er hjá uppsjávarveiðiskipunum þannig að meðafli í bolfiski dragist þá frá kvóta þeirra skipa sem þar er um að ræða sem botnfiskur, ekki sem uppsjávarfiskur. Með því ætti að myndast hvati hjá útgerðunum til að taka þann fisk til hliðar til að fá fyrir hann verðmæti sem er þá í samræmi við verðmæti aflaheimildanna eða þá að forðast það að veiða þennan afla þannig að nákvæmlega það sama gildi í þessu tilfelli og um annan meðafla.

Um hvort hækka eigi úr 5% í 7% má auðvitað deila, en almennt er þessi heimild ekki nýtt í botn. Tólf mánaða reglan hefur raunverulega ekki haft neitt sérstakt gildi eftir að framsalið varð eins virkt og raun bar vitni.

Varðandi auðlindagjaldið þá er ekki alveg rétt að það sé bara meðaltalsafkoman sem ráði heldur er upphæðinni dreift samkvæmt úthlutun eftir þorskígildum og þorskígildin breytast árlega og afkoman hefur áhrif á mat þorskígildanna þannig að rækjuútgerðin í dag er að greiða mun minna veiðileyfagjald, herra forseti, heldur en greitt var á síðasta ári í veiðieftirlitsgjald og þróunarsjóðsgjald.