131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Stjórn fiskveiða.

362. mál
[14:20]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Allt er þetta sennilega rétt hjá hæstv. ráðherra að því marki sem hann svaraði. Það er auðvitað rétt að þegar verðfall verður á rækju kemur það eftir á en það hins vegar mætir ekki þeirri uppákomu sem verður vegna verðfalls eða aflabragða innan ársins. Þar af leiðandi virkar það seint og illa fyrir utan það að ég dreg mjög í efa, miðað við afkomu rækjuveiðanna í dag, að þar sé nokkur staða til að greiða afgjald, því miður. Ég held að rekstrargrundvöllurinn sé þannig að það sé enginn afgangur, enda sýnir það sig að við erum að missa rækjuveiðarnar algerlega niður hér við land og það eru sárafáar útgerðir sem enn þá hugsa sér að gera út á rækjuveiðar.

Það er auðvitað gott um það að segja ef menn ætla að taka upp sambærilegar reglur fyrir uppsjávarveiðiskipin og önnur skip og ekki nema sjálfsagt að svo sé. Og ég er alveg sammála því sem hæstv. ráðherra sagði um að það hefði ekki mikið upp á sig að vera að áætla sérstaklega einhvern fiskveiðiafla á fáa dagabáta. Ég held að menn hafi alltaf gert of mikið vandamál úr þeim afla sem dagabátarnir veiddu meðan var og hét og ég sakna þess mjög ef menn eru að fara þá leið að fella niður dagabátana. En það koma tímar og koma ráð til að fást við það mál.