131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Stjórn fiskveiða.

362. mál
[14:35]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst um slægingarstuðlana. Ég hef þá skoðun að menn eigi að endurskoða þetta með það fyrir augum að afnema þá. Ég sé ekki nein góð rök fyrir því að halda í fyrirkomulagið og kem því á framfæri í þessu samhengi.

Það sem ég var að ýja að í sambandi við að menn urðu algerlega sammála um að aflinn sem landað væri utan kvóta ætti að fara á fiskmarkaði var að þar voru menn algerlega sammála um að jafnvel Hafrannsóknastofnun væri ekki fyllilega treystandi til að selja aflann öðruvísi en það lægi fyrir að hann ætti að fara í gegnum markaði. Það er svolítið umhugsunarefni að menn skuli vera sammála um þetta hér en þegar kemur að því að ræða málið á stærri og breiðari grundvelli um fisk almennt í landinu eru uppi aðrar skoðanir.

Varðandi 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða og stjórnarskrána er ég algerlega sammála því að 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða getur fyllilega farið saman við ákvæði sem sett yrði í stjórnarskrá um sameiginlegt eignarhald á veiðirétti. En önnur ákvæði laganna um stjórn fiskveiða sem gefa fyrirtækjum og aðilum forgangsrétt, óðalsrétt á úthlutun munu aldrei að mínu viti geta farið saman við almenna meðferð á stjórnarskrárbundnum auðlindum í eigu þjóðarinnar.