131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Dómstólar.

12. mál
[14:49]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tel löngu tímabært að menn taki á þessum málum. Umræðan á síðustu missirum um þessi málefni hlýtur að hafa sannfært menn um að það þurfi að gera. Ég vil líka minna á það — ja, ég a.m.k. hrökk svolítið við fyrir nokkrum dögum þegar sagt var frá hæstaréttardómi sem þrír dómarar sameiginlega höfðu kveðið upp. Þeir voru Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Árni Kolbeinsson. Það segir okkur svolítið mikið um okkar litla samfélag að í þessu litla, fámenna kunningja- og vinasamfélagi á Íslandi skuli menn hafa þá aðferð uppi sem raun ber vitni um hvernig velja skuli menn í Hæstarétt til að vera dómarar.

Það er ekki með neinum hætti verið að niðra þessa tilteknu menn þegar ég nefni þessa hluti en auðvitað hljóta að renna býsna margar grímur á fólk þegar dómarar sem valdir hafa verið með þessum hætti þurfa að fást við pólitísk úrlausnarefni í Hæstarétti, mikil deilumál úr samfélaginu. Þá gefa hinar pólitísku árásir fyrrverandi forsætisráðherra á Hæstarétt fyrir ekki mjög löngu síðan enn fremur fullt tilefni til að velta fyrir sér hvort menn hafi í framhaldi af þeim árásum líka ákveðið að herða þá sókn sem síðan raunin hefur borið vitni um með skipan þeirra tveggja sem ég nefndi hér áðan. Árni Kolbeinsson var reyndar kominn inn í Hæstarétt áður en sú skipan var líka umdeild. Hann hafði sem ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu og mikill samstarfsmaður Halldórs Ásgrímssonar, hæstv. núverandi forsætisráðherra, auðvitað unnið að málefnum hér við lagasetningu sem hljóta að koma til úrlausnar og hafa gert það á vegum Hæstaréttar.

Allt eru þetta hlutir sem menn hljóta að velta mikið fyrir sér hvort geti gengið til framtíðar. Ég ætla fyrir mitt leyti að kalla eftir pólitískri ábyrgð þeirra sem með völdin fara í þessu landi hvað þessi málefni varðar. Ef menn kunna ekki að fara með vald sitt gagnvart Hæstarétti, hvað er þeim þá heilagt?