131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Lögreglulög.

42. mál
[15:07]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér er um tiltölulega einfalda breytingu á lögum að ræða, að fella niður eina málsgrein í 34. gr. lögreglulaga. Ég tel að hér hafi verið færð ágæt rök fyrir þeirri breytingu, bæði í ræðu flutningsmanns, hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar, og eins í máli síðasta ræðumanns, hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar.

Það kemur fram í greinargerðinni, virðulegi forseti, að reglunum er misjafnlega framfylgt eftir embættum sýslumanna. Á Ísafirði eru innheimt sérstök gjöld af unglingalandsmóti, gjöld sem Ungmennafélag Íslands telur óréttmæt. Það mál er óuppgert við embættið og búið að stefna því eftir því sem ég best veit. Í annan stað er nefnt dæmi um sams konar ungmennamót á Sauðárkróki þar sem sýslumaður komst að þeirri niðurstöðu að innheimta ekki umrætt gjald og fella það niður. Þessi tvö dæmi leiða í ljós að algjört ósamræmi er í þessari framkvæmd og eðlilegt að á því sé tekið. Á landsbyggðinni virðist öðruvísi haldið á málum en annars staðar og við sjáum af þessum tveimur dæmum að reglunum er ekki framfylgt eins í öllum umdæmum sýslumanna á landsbyggðinni.

Það er vitanlega nauðsynlegt að eyða þessari réttaróvissu og fella ákvæðið út úr lögunum þannig að ríkið beri þennan kostnað, að sú framkvæmd sem verið hefur á þeim málum á undanförnum árum verði ekki við lýði áfram og lagaramminn verði tekinn til gagngerrar endurskoðunar að þessu leyti.

Ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni varðandi það að auðvitað hefði verið eðlilegt að dómsmálaráðherra hefði gengið í málið og klárað það. En þar sem ekki virðist vera vilji til þess er auðvitað sjálfsagt að fylgja því eftir sem hér hefur verið lagt til. Ég legg til að þingmenn taki undir það með því að styðja þetta mál.