131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[15:35]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Umræðunni virðist vera að ljúka núna. Hún fór auðvitað fram í síðustu viku að mestu leyti, en það er full ástæða til að þessi mál séu rædd. Hér hafa orðið miklar breytingar og eru áfram fyrirsjáanlegar miklar breytingar í þessum málum öllum. Það er ekki sjáanlegt annað en það sem hæstv. samgönguráðherra lagði upp með á sínum tíma, þegar hann var með frumvörp í þinginu og lög voru sett í framhaldi af því þar sem gert var ráð fyrir alþjónustu, hafi verið til lítils. Rökstuðningurinn hjá hæstv. ráðherra gekk út á það að með ákvæðunum um alþjónustuna væri komið í veg fyrir að hér yrði margföld fjárfesting hvað varðaði grunnkerfi af því tagi sem við erum að tala um.

Framhaldið hefur sýnt að þetta mistókst. Það er alveg auðséð í hvað stefnir ef grunnkerfi Símans verður selt með honum. Aðilarnir sem eru að keppa á þessum markaði munu ekki treysta Símanum vegna þess að hann er í bullandi samkeppni við þá. Það getur hver maður séð hvernig slíkt fyrirkomulag virkar. Halda menn virkilega ef maður lítur til starfsmanna Símans í framtíðinni að þeir muni ekki leggja áherslu á að láta verkefni sem koma Símanum vel ganga fyrir öðrum verkefnum?

Sögurnar sem ganga núna um hvernig tekið sé á þessum málum, meira að segja áður en búið er að selja Símann sem ætti þó að vera tímabil þar sem Síminn mundi vara sig verulega á því að beita ekki slíkum aðferðum, ganga samt út á að þetta sé gert.

Ég ætla ekki að fara að segja frá þeim hlutum sem mér hafa verið sagðir, vegna þess að ég hef ekki sannanir fyrir þeim. En ég veit að það ganga ýmsar sögur og reyndar hafa sum fyrirtæki látið það koma fram opinberlega að þau hafi verið tafin á afgreiðslum hjá Símanum. Eitt er það atriði að það hafi verið settur upp búnaður á vegum Símans og vegna þess að viðskiptaaðilarnir voru ekki nógu margir sem Síminn hafði til þess að nýta þann búnað hafi verið slökkt á honum, þó að það hafi verið viðskiptavinir sem þurftu á honum að halda á vegum samkeppnisaðilanna. Þetta eru m.a. sögurnar sem ganga um þessi samskipti.

Það að það séu einhver stórkostleg tæknileg vandamál á því að skilja grunnnet Símans frá er alveg hægt að vísa til föðurhúsanna. Það eru ekki meiri vandamál að mati þeirra sérfræðinga sem ég hef talað við á því að skilja grunnnet Símans frá en eru á því að skilja grunnnet í raforkukerfinu frá annarri þjónustu. Þetta eru bara skilgreiningaratriði sem þarf auðvitað að fara í gegnum og ákveða hvernig eigi að koma fyrir.

Hins vegar er öllum ljóst sem vilja vita að við erum að glíma við pólitíska niðurstöðu sem varð á milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um að selja skyldi grunnnetið með Símanum. Sjálfstæðismenn höfðu það í gegn. Framsóknarmenn höfðu allt aðra skoðun á málinu fyrir nokkrum missirum. Þá voru þeir allir á því að það ætti að skilja grunnnetið frá. Nú frétti ég af hæstv. forsætisráðherra úti í bæ sem er með yfirlýsingar um að það standi ekki til að breyta ákvörðuninni um þetta, grunnnetið verði selt með Símanum. Hæstv. forsætisráðherra virðist stunda það þessa dagana að senda pólitískar yfirlýsingar út um allt, annars staðar en í sölum Alþingis. Af hverju hann velur sér aðra staði til að tala er kannski umhugsunarefni fyrir okkur þingmenn.

Mér finnst full ástæða til þess að menn fylgi þessum málum eftir og láti finna fyrir þeim þrýstingi sem þarf að vera til þess að ríkisstjórnin bakki í málinu. Við höfum séð núverandi ríkisstjórn bakka í málum. Það eru því til afturábakgírar hjá henni. Það er bara að sjá til þess að þeir verði notaðir.

Mér finnst ástæða til þess að það verði gert í þessu máli og hvet menn til þess að fylgja því fast eftir að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að selja grunnnetið með Símanum verði endurskoðuð.