131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[16:08]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er eflaust rétt hjá hv. þingmanni að um suma atvinnustarfsemi, t.d. vatnsveitur, sé hægt að færa rök fyrir því að tvöfalt kerfi yrði of dýrt jafnvel þó að samkeppni mundi reyna að þrýsta verðinu niður, svo að maður tali nú ekki um skólp. Það hefur reyndar ekki verið reynt en það getur vel verið að samkeppni verði um skólp. Það er t.d. að koma núna varðandi sorp og hugsanlegt er að fram komi samkeppnisfyrirtæki við Sorpu í Reykjavík. En ljóst er að samkeppnin krefst ákveðins markaðar, ákveðinnar stærðar á markaði og ég held t.d. að landsbyggðin geti kvartað undan því að skortur sé á samkeppni t.d. í olíu- og bensínsölu úti á landi þó að kannski sé einhver vísir að samkeppni í Reykjavík.

En ég tel, og færði rök fyrir því í máli mínu, að gagnaflutningar séu í svo örri þróun núna og að til eru svo margar lausnir og sumar hverjar alls ekki dýrar, eins og sú sem Landsvirkjun er að vinna að, að sú fjölbreytni mun kalla fram ódýrustu lausnina fyrir neytendur og ef einhverjir fara út í allt of dýrar fjárfestingar þá er það bara þeirra biti eins og alltaf í atvinnulífinu. Ég held að vegna þessarar öru þróunar muni einmitt gagnaflutningar geta fallið undir sama svið og matvöruverslun, þ.e. að aukin samkeppni þrýsti verðinu niður.