131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[16:10]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi þær mismunandi gagnaflutningaleiðir sem er verið að þróa núna þá er það vissulega alveg rétt að þær eru margar og mismunandi. Eins og er er það náttúrlega kannski aðallega koparinn. En allir vita að menn reyna að nýta sér koparinn því að hann er fjárfesting sem er til staðar, rétt eins og Orkuveitan var að nýta sér raflagnirnar af því að þær voru til staðar og það er skynsamlegt.

Hins vegar held ég að engum blandist hugur um það ef við erum að tala um gagnvirk samskipti að ljósleiðarinn sé framtíðin og þá erum við að tala um verulegar fjárfestingar sem liggja í ljósleiðaravæðingunni. Hættan er sú að þar fari nokkrir aðilar af stað. Síminn hefur fjárfest í ljósleiðurum. Orkuveita Reykjavíkur er að fjárfesta í ljósleiðurum. Landsvirkjun á ljósleiðara. Það er miklu nær að þessir aðilar leggi þessa ljósleiðara sína saman og veiti öllum aðgang að þeim. Þá getur orðið nýsköpun á þessum markaði og þá geta nýir aðilar komið inn. Það getur orðið nýliðun og þeir þurfa ekki að tortryggja þá sem veita þeim efnin um sínar dreifileiðir.