131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[16:12]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hverjum manni er í sjálfsvald sett að trúa á tilteknar pólitískar kenningar. Hins vegar er varasamt þegar menn trúa gagnrýnislaust og beinlínis hættulegt ef slíkir menn komast í valdaaðstöðu, aðstöðu til að stýra einu þjóðfélagi. Það á við, alla vega að hluta til, um hv. þm. Pétur H. Blöndal, formann efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Hann segir að líta megi á það sem nánast algilda reglu að samkeppni færi verðlag niður.

Nú vill svo til að áður en Síminn var gerður að hlutafélagi bjuggu Íslendingar við lægsta kostnað af síma í heiminum öllum. Þótt litið væri til allrar heimsbyggðarinnar voru afnotagjöld og símkostnaður Íslendinga lægri en gerist nokkurs staðar annars staðar innan OECD.

Annað er að við erum nú að fara með þessa þjónustu, ef vilji ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga, raforkugeirann einnig og aðra grunnþjónustu, inn á markaðstorg í krafti þessarar trúar hv. þingmanns að markaðsvæðingin komi til með að gagnast neytendum á þennan hátt, að verðlagið muni lækka.

Nú eru þær fréttir að berast frá Evrópu að einkavæðing og markaðsvæðing raforkunnar hafi ekki leitt til þess að verðlag hafi lækkað, það hafi gerst í sumum tilvikum gagnvart stórkaupendum, stórfyrirtækjum. En gagnvart almenningi hefur þetta ekki gerst. Það hefur í mörgum tilvikum hækkað.

Það sem er að gerast auk þess er að örfá fyrirtæki eru að sölsa undir sig allan markaðinn. Fákeppni á þessum markaði er að styrkjast. (Forseti hringir.) Óttast hv. þingmaður eða vill hv. þingmaður ekki draga einhverja lærdóma af þessari þróun?