131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[16:22]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá bið ég hv. þingmann að svara þeirri spurningu hvort hann telji þetta einhverja óskaplega nauðsyn fyrir Símann. Er ekki hægt að sleppa Símanum inn í þessa samkeppni öðruvísi en að hann hafi þetta forskot á önnur fyrirtæki í þessum bransa? Er það virkilega svo að þessu stóra fyrirtæki, sem hefur staðið sig svo vel í gegnum tíðina, sé ekki óhætt í því samkeppnisumhverfi sem þannig yrði til? Hvað er á bak við það að ekki megi kljúfa þetta í sundur? Við erum ekki að halda því fram að eignarhaldið á þessu grunnlínufyrirtæki geti ekki með einhverjum hætti verið þannig að það sé jafnvel á almennum markaði. Við höldum því bara fram að það megi ekki vera í eigu þess sem er í samkeppni við aðra. Þannig getum við búið til í upphafi einkavæðingarinnar almennilegt umhverfi fyrir fyrirtækin til þess að slást í samkeppninni. Hv. þingmaður gerir kannski grein fyrir þessu.