131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[16:23]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var búinn að því. Ég var búinn að gera grein fyrir því að vegna hinnar miklu þróunar og hraða í breytingum muni það engu breyta hvort Landssíminn verður seldur með kerfinu eða án, hann muni engu að síður lenda í samkeppni.

Á örfáum árum hefur hann tapað, eins og hv. þingmaður sagði, markaðshlutdeild úr 100% niður í 70% þannig að ég hugsa að vegna þess hve markaðurinn vex mjög hratt muni samkeppnin verða meiri og það verði jafnstærri aðilar á markaðnum. Svo megum við ekki gleyma öllum heiminum. Hann er hérna rétt fyrir utan. Hann er meira að segja yfir Íslandi með gervitunglin og þar mun koma samkeppni ef verðin verða of há innan lands.