131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[16:32]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég má til með að koma inn á það sem hv. þingmaður sagði um trú manna á einkavæðingu, trú manna á hitt og þetta. Hingað til hefur þetta verið kallað sannfæring og í stjórnarskránni ber þingmönnum að fara að sannfæringu sinni og það geri ég. Ég er ekkert sérstaklega fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu, ég er aðallega fulltrúi sjálfs mín þó að stjórnarandstaðan reyni alltaf að þrýsta manni inn í það að vera fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Ég er ekki einu sinni í þeirri nefnd sem fjallar um þetta.

En ég trúi á það að einkavæðing sé betri en ríkiseign, ég trúi á það og sagan hefur sýnt mér það. Það var nefnilega þannig á Íslandi að bankarnir voru í ríkiseigu og lánuðu oft á tíðum með pólitískum vilja. Ég man ekki eftir því að þeir hafi nokkurn tíma skilað arði í ríkissjóð. (Gripið fram í: Nú!) Nei. Þau kröfðust meira að segja — Landsbankinn þurfti aðstoð ríkissjóðs, víkjandi lán og annað slíkt á tímabili. Það var ekki fyrr en bankarnir voru einkavæddir sem þeir fóru að skila gífurlegum hagnaði. Nú segja náttúrlega sumir að það sé á kostnað neytenda en svo er heldur ekki. Vaxtamunur, sem er aðalkostnaður neytenda, munurinn á því sem sparifjáreigendur fá og því sem skuldarar greiða hefur farið hratt minnkandi, mjög hratt minnkandi. Samkeppnin er því mikil í þessum geira þannig að ég styð mína sannfæringu og trú við reynslu af einkavæðingu bankanna.

Hv. þingmaður sagði að menn komist yfir þennan bita. Nú vill svo til að hann er í stjórn lífeyrissjóðs, hann gæti bara boðið í þennan bita. Hann gat líka boðið í bankana á sínum tíma ef þeir voru svona óskaplega góður kostur að kaupa.