131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Endurskoðun á sölu Símans.

44. mál
[16:38]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ætli það eigi ekki við um okkur flest að við teljum að samfélaginu hafi miðað fram á við þegar litið er til undangenginna áratuga, að ekki sé minnst á fyrri aldir þegar Íslendingar bjuggu við mjög bágan kost. Hins vegar held ég að skýringar hv. þingmanns á framförunum séu nokkuð umdeilanlegar.

Við skulum ekki gleyma því, þó að ég ætli ekki að gerast svartsýnismaður eða úrtölumaður, við skulum samt sem áður vera raunsæ. Staðreyndin er sú að bankarnir hafa verið að taka að láni í útlöndum á undanförnum missirum mörg hundruð milljónir króna, ef ekki milljarða. (Gripið fram í: Án ríkisábyrgðar.) Án ríkisábyrgðar! Hvílíkur barnaskapur er þetta? Við erum að tala um efnahagslíf einnar þjóðar og hvernig á því er haldið að sjálfsögðu. Það er auðvitað nokkuð sem kemur öllu samfélaginu við þegar það gerist að viðskiptahalli er orðinn viðvarandi ár eftir ár. Menn gera ráð fyrir að hann sé á þessu ári 60–70 milljarðar kr., menn gera ráð fyrir 150 milljörðum á næsta ári, menn eru að tala um 50 milljarða á árunum sem þar koma á eftir eða alls uppsafnaðan viðskiptahalla fram til 2010 upp á 500 milljarða kr. Þetta eru peningar sem eru teknir að láni sem að sjálfsögðu þarf síðan að greiða fyrir þannig að við skulum ekki dansa á einhvern óábyrgan hátt eins og mér heyrist hv. þingmaður gera.

Hins vegar verð ég að segja að mér finnast frjálshyggjumenn skipta um gír ansi oft í þessum málum. Þegar starfsemi er á vegum ríkisins er sagt að það þurfi að færa hana út á markað og innleiða samkeppni. (Forseti hringir.) Þegar hún er þangað komin þarf að sameina, þá þarf að sameina kraftana (Forseti hringir.) og þá er talað um samlegðaráhrif o.s.frv. (Forseti hringir.) Eitt sagt í dag, annað á morgun, allt eftir því hvað þjónar hagsmunum fjármagnseigenda.