131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Stjórn fiskveiða.

362. mál
[17:18]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það er alltaf svolítið einkennilegt að sitja undir ræðum þegar talað er um aðför að hinum og þessum, um svik og svikin loforð og kallað er eftir mönnum til að standa fyrir máli sínu og höfð uppi stóryrði og jafnvel gripið til þess að vitna til erlendra mála til að koma hugsunum sínum á framfæri við hv. þingheim, sérstaklega þegar það sem verið er að brydda upp á er að hluta til efni úr fyrri umræðum í vetur, fyrirspurnum hv. þingmanns sem þá voru til umræðu og var svarað, samanber árangurinn varðandi verndun þorskstofnsins. En þá var gerð grein fyrir því að þrátt fyrir að aflinn væri að vísu helmingur á við það sem hann var þegar kvótakerfið var tekið upp væri stofnstærðin nokkurn veginn sú sama. Það eru mjög fáar þjóðir sem geta státað af því að vera með sömu stærð af þorskstofninum í dag og hún var fyrir 20 árum. Langsamlega flestar þjóðir hafa horft upp á stofna sína minnka verulega og eru með mun minni stofna nú en þá voru.

Hv. þm. Jón Bjarnason spurði um áhrif niðurfellingar á sóknardagakerfinu varðandi samsetningu flotans og hvaða áhrif framsalið hefði haft og hvaða áhrif það hefði á landaðan afla. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson spurði þess sama. Reyndar orðaði hann það svo hvaða áhrif það hefði haft á útgerðarmunstrið að þessar breytingar voru leiddar í lög á vordögum. Ég held að það sé algerlega ótímabært að gera athugun sem þessa. Það eru reyndar ekki nema fimm mánuðir síðan lögin tóku gildi, þ.e. við upphaf þessa fiskveiðiárs. Ef þessar breytingar hefðu ekki verið gerðar á lögunum sl. vor hefði tímabil sóknardagaflotans, sem var ef ég man rétt eitthvað nálægt 300 bátar, hafist 1. apríl nk. Við erum því engan veginn komin á þann stað í tíma að við getum metið þessi áhrif einfaldlega vegna þess að veiðitímabil þessa flota, það næsta á eftir því sem síðast var, er ekki hafið. Það eru ekki til samanburðarhæfar upplýsingar til að bera saman og komast að þessum niðurstöðum. Þetta hefði ég haldið að hv. þingmenn vissu. Þeir vissu hvernig sóknardagakerfið var og hvernig því var stakkur skorinn eftir árstímanum. En auðvitað verður þetta skoðað og sérstaklega út frá því hvernig landaður afli hefur breyst og hvaða áhrif það hefur haft á byggðirnar. Það er í samræmi við það sem við höfum verið að gera þegar við höfum skoðað hvernig aflabrögð einstakra byggðarlaga hafa breyst í samræmi við þær útfærslur sem eru á byggðakvótanum.

Svo finnst mér alltaf svolítið sérstakt þegar hv. þingmenn eru að hnýta hver í annan fyrir að sinna því ekki að sitja undir umræðunni. Ég held ég geti alveg fullyrt að hv. formaður sjávarútvegsnefndar hefur setið a.m.k. jafnmikið undir þessari umræðu og hv. þm. Sigurjón Þórðarson og er algerlega ómaklegt að vera að hnýta í það sérstaklega.

Svo veit ég eiginlega ekki heldur hvers siglfirskir vinstri menn eiga að gjalda. Ég veit ekki hvort hv. þm. Jón Bjarnason er sammála þeim ónotum sem siglfirskir vinstri menn fá frá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni varðandi útfærslu sína, en það er stefna ráðuneytisins að reyna að vinna að útfærslu byggðakvótans í samráði við heimamenn, hvort heldur ráðandi menn í byggðarlögunum eru hægri menn eða vinstri menn, og þeir hafi svigrúm til að koma með sínar hugmyndir og útfæra þær svo fremi að þær séu í samræmi við grundvallaratriði góðrar stjórnsýslu eins og okkur er uppálagt af umboðsmanni Alþingis að fylgja eftir. Að öðru leyti eru þeim ekki lagðar neinar línur um sína úthlutun af sjávarútvegsráðuneytinu.

Hv. þingmenn Jón Bjarnason og Sigurjón Þórðarson spyrja báðir um 5% markið hvað varðar hafróaflann. Það er með þessa tölu eins og margar aðrar tölur sem menn notast við að þegar menn byrja setja þeir eitthvert mark til að miða við og síðan vonast menn til þess að reynslan sýni annaðhvort gildi þess að nota þá viðmiðun eða einhverja aðra. Hins vegar sýnist mér að það sé langt frá því þegar litið er yfir í heildina að þessu 5% marki sé náð og eins þegar skoðaðar eru einstakar tegundir að þá nái engin þeirra 5% markinu heldur. Ég hef ekki brotið þetta niður á landshluta, byggðarlög, eða einstakar útgerðir eða einstök skip, ég veit ekki hvort það er rétta aðferðin til að nálgast sannleikann að gera það þannig, það er enginn stóri sannleikur fólginn í þessari 5% tölu. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að hv. sjávarútvegsnefnd skoði þau gögn sem fyrir hendi eru og keyri þau út á þann máta sem hún telur eðlilegt til að fá mynd af þessu og menn reyni þá að fá niðurstöðu um hvort þessi 5% tala sé svo fráleit að nauðsynlegt sé að breyta henni.

Hv. þm. Jón Bjarnason spyr um uppsjávarmeðaflann. Ég ræddi hann fyrr eins og hv. þingmaður reyndar vísaði til. Það er ekki auðvelt að leysa þetta vandamál. Hins vegar liggur grundvallarlöggjöfin fyrir og verið er að reyna að leysa málið. Það er byggt á þeim upplýsingum sem við höfum safnað undanfarin missiri. Það hefur komið í ljós að það er talsverður munur á því hvernig þetta leggur sig eftir árum en þó er alveg greinilegt að það er nauðsynlegt að við setjum reglur um þetta sem hægt er að vinna eftir og það er verið að gera. Dagsetningu get ég ekki gefið, ég vildi gjarnan geta gefið hana en get það ekki, en þetta er mál sem þarf að leysa úr bæði fljótt og vel.

Hv. þm. Jón Bjarnason nefndi viðbót sem gefin var loðnuflotanum. Það má auðvitað lýsa því á ýmsan hátt þegar ákvarðanir um kvóta eru teknar en að þessari kvótaúthlutun var staðið á fullkomlega eðlilegan og hefðbundinn hátt. Þegar mæling lá fyrir annaðhvort að hausti eða í janúar eins og oft hefur komið fyrir var kvótinn gefinn út í samræmi við mælinguna, ekki í samræmi við neitt annað. Hvorki vegna eins né neins annars heldur vegna þess að mælingin á loðnustofninum, miðað við þær reglur sem við síðan höfðum um úthlutunina, leiddi til þess að úthlutunin var af þessari stærð. Og þær upplýsingar sem við höfum bestar um hvernig nýta megi loðnustofninn gefa ekki tilefni til þess að ætla að þetta leiði til þess að öðrum hlutum vistkerfisins hraki eða þeir njóti sín ekki vegna inngripa okkar í náttúruna hvað þetta varðar. Hins vegar er ýmis breytileiki í náttúrunni sem hefur áhrif á einstaka þætti vistkerfisins innbyrðis og þar er breytileiki í loðnugöngunum. Hversu langt loðnan gengur suður með landinu og vestur með landinu getur haft áhrif á viðgang bolfiskstofna á tilteknum svæðum en hvað varðar heildarákvörðun á veiðum loðnuflotans þá er það ekki það sem hefur áhrif á þann ganginn.

Herra forseti. Ég held að ég hafi farið yfir þær spurningar sem hér komu fram og vil þakka fyrir ágæta umræðu um málið í dag.