131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Stjórn fiskveiða.

362. mál
[17:37]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki alveg viss um að því sem lýst er í umræddum ákvæðum hafi verið sinnt. Það er auðvitað hægt að fletta því upp og ég veit að ráðherrann getur látið starfsmenn sína gera það. Í bráðabirgðaákvæði VII er t.d. rætt um „… að meta hagkvæmni einstakra aðferða miðað við íslenskar aðstæður með sérstakri hliðsjón af því hvernig unnt sé að tryggja atvinnuöryggi fiskverkafólks og hagsmuni einstakra byggðarlaga.“

Þetta er ekkert smámál í þessari umræðu sem fer af stað annað slagið, þ.e. staða fiskvinnslufólks og hvernig byggðirnar eru settar. Í bráðabirgðaákvæði XIX er rætt um að skoða sérstaklega stöðu og möguleika einstaklingsútgerðarinnar og hvernig hún hefur haldið velli í íslenskum sjávarútvegi og þróast. Í bráðabirgðaákvæði XXII segir að leggja skuli fyrir Alþingi skýrslu þar sem gerð sé grein fyrir áhrifum þeirra á íslenskan sjávarútveg, þ.e. áhrifum laganna og allra breytinganna á þeim.

Hæstv. ráðherra hefur sjálfur lýst því að nú væri komið að endastöð í breytingum í sjávarútveginum og að það stefndi í hina kortlögðu sátt. Ég tel því fullt tilefni til að mælast til að fara eftir þessum bráðabirgðaákvæðum um úrvinnsluskýrslu sem færi okkur heim sanninn um á hvaða vegi við erum stödd og hún verði lögð fyrir Alþingi, ekki síst þar sem a.m.k. þrjú ef ekki fjögur ákvæði eru í lögum um að slík skýrsla skuli gerð. Ég mælist til þess við ráðherrann að hann láti meta ástandið sérstaklega með tilliti til atvinnuöryggis og byggðarlaganna.