131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Stjórn fiskveiða.

362. mál
[17:54]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vissi eða réttara sagt taldi mig vita að minni mitt væri í nokkuð góðu lagi og fann fjórða bráðabirgðaákvæðið, hæstv. ráðherra, það er hérna í lögunum frá árinu 1999.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Sjávarútvegsráðherra skal skipa nefnd til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða. Skal þeirri endurskoðun lokið fyrir lok fiskveiðiársins 2000/2001.“

Ég veit ekki hvort þær skóbætur sem við höfum verið að gera á lögunum af og til teljast endurskoðun. Endurskoðun í mínum huga er þegar menn setjast yfir lagabálk í heild sinni, fara yfir hann, fara yfir forsendur laganna, fara yfir hvaða afleiðingar þau hafa haft, hvaða gagn þau hafa gert þjóðfélaginu og meta á nýjan hátt og nýjan leik hvaða árangri menn hafi náð með þeirri lagasetningu sem sett var, því að öll höfum við ætlað að ná árangri fyrir íslenska þjóð eða ég geng a.m.k. út frá því að það hafi verið markmið okkar allra þó að við höfum misjafna sýn á stjórn fiskveiða og afleiðingar hennar eins og við höfum verið að rekja í dag.

En það er þá ljóst og best að láta bóka það í þingtíðindi að bráðabirgðaákvæðin eru a.m.k. fjögur um það að skoða lögin og endurskoða þau.

Ég ætla líka að fara fram á það við hæstv. ráðherra þar sem hann hefur haldið því fram hér í dag að þessar skýrslur hafi allar verið unnar, að hann sendi mér þær í réttri röð með tilvitnun til þeirra efnisgreina sem lögin kveða á um, hvað hafi verið skoðað, og ég fái skýrslurnar í hendur í réttri röð miðað við það sem unnið hefur verið.

Ég get líka í mestu vinsemd gert mér ferð upp í ráðuneytið og sest hjá ráðherra og við farið yfir þetta í rólegheitunum ef svo skyldi vera að þær væru ekki allar til á prenti, en ég hygg að þetta sé verk sem þurfi að líta aðeins á. Og í fullri alvöru, hæstv. ráðherra, þá held ég að eins og staðan er núna sé alveg orðið tímabært að fara að velta því fyrir sér og skoða hvaða árangri við höfum endanlega náð með núverandi fiskveiðistjórnarkerfi.

Eins og menn ræddu hér fyrr í dag og hv. þm. Sigurjón Þórðarson benti á hefur þorskaflinn ekki vaxið mikið undir lögunum um stjórn fiskveiða þó að ráðherrann telji það sérstakt afrek að hafa látið þorskstofninn sem slíkan nokkurn veginn standa í stað. En ég hygg að hafa megi ýmsar skoðanir á því, tel reyndar að stofninn sé minni en hann var þegar við lögðum af stað í þessa ferð.

En hvað um það, við höfum nú svo oft týnt 300 þúsund tonnum úr þorskstofninum undir vísindalegu eftirliti að sjálfsagt má deila um það fram og til baka.

Það er eitt atriði sem mig langar örlítið að ræða og víkja að við lok umræðunnar og það er eignarhaldið. Ég óttast mjög að eignarhaldið verði með þeim hætti að einstaklingarnir eigi aflaheimildirnar algjörlega í sjónum og fái þeim alveg ráðið án þess að þjóðin hafi þar mikið um að segja og er ég þá m.a. að vitna til þeirrar greinar sem skrifuð var í Morgunblaðið í morgun. Ég held að það sé léleg framtíð fyrir íslenska þjóð að eignarhaldið verði á höndum ákveðinna manna sem síðan verði með leiguliða til að nýta auðlindina. Það er eitthvað sem mér hugnast ekki mjög vel. Ég hygg að ef það verður framtíðin þá styttist í starfsmannaleigurnar sem verði notaðar til að nýta fiskveiðiréttinn okkar. Ef ég veit rétt er núna íslenskt skráð fiskiskip með algjörlega erlendri áhöfn að veiða fisk í íslenskri lögsögu. Ég held að skipið sé í eigu Samherja, sé færeyskt með færeyskri áhöfn. Ekki það að af mörgum þjóðum mundi ég velja Færeyinga öðrum fremur til að nýta með okkur lögsöguna. En ég bendi á þetta vegna þess að við höfum jú verið að sjá hér alls konar atvinnurekstur á undanförnum árum, m.a. uppi á hálendinu, og höfum verið í miklu baksi þar með starfsmannaleigur o.s.frv.

Ég held líka að afar nauðsynlegt sé að skoða réttarstöðu byggðanna og réttarstöðu fólksins í sjávarbyggðum. Þetta getur ekki gengið til framtíðar að við séum með svo mikla óvissu um atvinnurétt fólksins og sífellt að lenda í alls konar vandræðum og uppákomum og þurfa síðan að vera að reyna að bæta þar um með byggðakvótum og viðurlagakvótum þar sem atvinnubrestur verður í byggð. Fólk á rétt á því, sem býr í þessum sjávarbyggðum og hefur búið þar og sett sig þar niður, að hafa meira atvinnuöryggi og meiri festu í þeim réttindum sem tilheyra sjávarbyggðunum. Þetta held ég að menn verði að skoða mjög gaumgæfilega ef menn ætla yfirleitt að horfa til þess að einhvern tíma í framtíðinni geti orðið friður um þetta kerfi. Það verður aldrei friður um þessa útfærslu sem núna ríkir með allri þeirri óvissu sem þar er eða ég get ekki séð það fyrir mér.

Það er eitt atriði sem ég hef ekki nefnt og langar að koma aðeins inn á og það er fræðsla til ungmenna um íslenskan sjávarútveg. Eins og menn vita er ekki auðvelt fyrir ungliða að komast að í sjávarútvegi alveg reynslulausir og mér finnst líka þurfa að fræða nemendur á grunn- og framhaldsskólastigi um íslenskan sjávarútveg. Við höfum gert þetta á undanförnum árum með því að reka nokkurs konar námskeið um borð í hafrannsóknarskipinu Dröfn. Nú hefur það verið selt en það eru vissulega aðrir sem hafa haft áhuga á því að vera með námskeið fyrir ungt fólk í sjóvinnu og nýtingu auðlindarinnar. Ég man eftir einum miklum áhugamanni þar um sem heitir Karel og hefur starfað í Hafnarfirði, ég veit að hæstv. sjávarútvegsráðherra þekkir hann ágætlega.

Þessi mál eru í nokkru uppnámi. Við fórum í gegnum þessa umræðu þegar verið var að ákveða að selja hafrannsóknarskipið Dröfn og væri gott ef sjávarútvegsráðherra vildi vera svo vænn að svara því með nokkrum orðum hvað ráðuneytið leggi til við að styðja við aðgerðir um að slík fræðsla komist á og verði veitt ungmennum. Ég held að það sé mjög áhugavert að halda slíkri fræðslu áfram og vonast til þess að ráðherra sé að hugsa í þá veru að finna því farveg og langar þess vegna að spyrja um það í lokin hvaða möguleika hann sér í stöðunni með það.

Ég held ég muni það úr samningnum sem gerður var um sölu á Dröfninni að samið hafi verið um að Dröfnin mundi áfram sinna einhverjum rannsóknum fyrir Hafrannsóknastofnun. Hins vegar var ekkert minnst á fræðsluna og ég hef orðið var við það hjá kennurum að þeim fannst mjög mikils virði að sá möguleiki væri til staðar. Ég segi fyrir mitt leyti sem áhugamaður um sjávarútveg að ég sakna þess ef fræðslan dettur niður og mælist því eindregið til þess að ráðherrann hugi vel að því. Hann ætti að hafa nokkurt svigrúm til að koma að því máli og leysa þar úr brýnni þörf að mínu áliti.