131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Stjórn fiskveiða.

362. mál
[18:03]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þeirri endurskoðun sem hv. þingmaður vísaði til lauk þegar veiðileyfagjaldið var tekið upp 2002. Endurskoðunarnefnd skilaði skýrslu, endurskoðaði lögin og því ferli lauk með upptöku veiðileyfagjaldsins.

Varðandi skólaskipsverkefnið hefur ráðuneytið ráðstafað ákveðnum hluta af þeim fjármunum sem það hefur haft til þeirra hluta. Jafnframt hefur fengist fjárveiting frá Alþingi á móti og því verður haldið áfram svo fremi sem þeir fjármunir verða til reiðu til þeirra verkefna. Verið er að leita að heppilegu skipi fyrir verkefnið. Dröfnin er áfram inni í myndinni en önnur skip koma vissulega líka til greina og vonandi að það fáist farsæl niðurstaða í það mál.