131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:18]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra veldur mér nokkrum vonbrigðum fyrir þröngsýnina. Það er nú meira að segja svo í þessu lagafrumvarpi að það á ekki einu sinni að leyfa ræfilsverkefnasjóði sjávarútvegsins að úthluta þessu fjármagni á eigin forsendum heldur er boðið að hann skuli veita það til Hafrannsóknastofnunar. Af hverju er það þá ekki bara sett beint þangað? Mér finnst þetta orðalag vera hnútur á hnút ofan sem ekki passi. Ég er alls ekki að kasta rýrð á verkefni Hafrannsóknastofnunar og tek alveg undir með hæstv. ráðherra að auka þurfi hafrannsóknir og gera þær öflugri og markvissari en nú er unnið að. Er ég þá ekki að kasta rýrð á þau störf sem unnin eru. En mér finnst rangt að binda þetta svona, úthluta þessu til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins, sem hefur eigin stjórn og úthlutunarreglur, binda það að hann megi bara láta Hafrannsóknastofnun hafa þá, mér finnst þetta ekki vera rétt.

Ég varpa líka fram þeirri hugmynd sem mér finnst að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefði einmitt átt að velta fyrir sér hvort væri rétt að skoða, að þessu fjármagni sem kemur fram sem ein upphæð og er til ráðstöfunar bara einu sinni, henni verði varið til einmitt sérgreindra aðgerða til þess að styrkja sjávarútveginn í landinu, því það dugar lítið að vera með hafrannsóknir og rannsóknir á fiski í sjónum ef fiskvinnsluhúsin eru komin yfir um. Það er erfið staða á litlum fiskvinnsluhúsum, eins og ég nefndi á Hofsósi og fiskvinnslunni á Stöðvarfirði, kannski væri skynsamlegt að verja þeirri upphæð þangað, það væri rétt að skoða, því þessi upphæð á væntanlega að fara til þess að styrkja stoðir sjávarútvegsins í heild.