131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:20]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Gerir hv. þingmaður sér grein fyrir að með því að gera breytingar á þeim lögum sem nú eru um Þróunarsjóðinn, hvernig eigi að ráðstafa þessum fjármunum, væri verið að taka fjármuni af Hafrannsóknastofnun, fjármuni sem hún á samkvæmt lögum í dag að fá til hafrannsókna? Gerir hann sér grein fyrir því? Fer það saman við það sem hann segir að hann telji að meiri fjármuni þurfi til hafrannsókna en ætli síðan að taka þá fjármuni af sem lögin segja að eigi að fara til hafrannsókna og Hafrannsóknastofnunar? Það eru þversagnir í málflutningi hv. þingmanns. Þetta eru þversagnir. Ég geri mér grein fyrir að hv. þingmaður vill gera gott mjög víða, en það er ekkert sem styrkir sjávarútveginn meira en það að standa fyrir góðum rannsóknum. Við eigum, eins og ég hef haldið að væri samhljómur um hér í þingsalnum, að standa vörð um Hafrannsóknastofnun og þau góðu verk sem þar eru unnin, standa vörð um hafrannsóknir og ekki að taka þá peninga af sem stofnunin samkvæmt lögunum hefur í dag.