131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:45]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að við verjum miklum fjármunum til hafrannsókna en við þurfum líka mikla fjármuni til hafrannsókna. Við höfum verið að auka fjármunina sem hefur verið varið til hafrannsókna, það er rétt, og við eigum að auka þá enn frekar. Það veitir ekkert af því. Sjávarútvegurinn hefur verið grundvallaratvinnuvegur þjóðarinnar. Það er ekkert sem bendir til annars en að hann muni áfram verða grundvallarstoð í íslensku efnahagslífi og til þess að hún megi nýtast okkur sem best verðum við að leggja í verulegar rannsóknir á vegum þeirrar stoðar efnahagslífsins. Þess vegna eigum við ekki að rýra þá fjármuni sem Alþingi ákvað 1997 að skyldu renna í þetta verkefni. Það er í fullkomnu ósamræmi við þann málflutning sem hafður hefur verið uppi á hv. Alþingi á síðustu missirum þegar hafrannsóknir hafa verið til umræðu.