131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:46]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki séð að ég sé á neinn hátt að mæta sjálfum mér í dyrunum með málflutningi mínum í þessu tiltekna máli. Ég sakna þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra skuli ekki svara spurningu minni um það hvort honum þyki ekki óeðlilegt að hann einn skuli hafa með höndum þetta mikla vald hvað varðar fjárveitingar og fjármögnun á hafrannsóknum hér við land og að hann skuli ákveða það sjálfur nánast einhliða, því ég reikna með að embættismennirnir þrír sem stjórna þessum sjóði geri það sem þeim sé sagt að gera frá hendi ráðherra sem er jú yfirmaður þeirra og ber ábyrgð á verkum þeirra. Það kemur hér í ljós að um er að ræða mörg rannsóknarverkefni sem eru góðra gjalda verð en ég efast í raun stórlega um það, þó að ég viti að hæstv. ráðherra er vel menntaður maður, að hann hafi alltaf fullar forsendur til að taka ákvarðanir um hvað beri að rannsaka og hvað megi bíða.