131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:47]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sú þingsályktun sem ég vitnaði hér til á sínum tíma var ágætlega skýrt orðuð, held ég. Hún var samin af sjávarútvegsnefnd og flutt af formanni sjávarútvegsnefndar sem þá var starfandi, Kristni H. Gunnarssyni, ef ég man rétt. Það segir svo í þeirri ályktun sem samþykkt var árið 2000:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa tillögur um hvernig skuli staðið að varðveislu gamalla skipa og báta sem eru mikilsverðar minjar um atvinnu- og byggðasögu. Í því sambandi verði mótaðar reglur um fjármögnun, sem m.a. Þróunarsjóður sjávarútvegsins taki þátt í, og varðveislugildi báta og skipa skilgreint.“

Ég held að okkur hafi verið alveg ljóst sem stóðum að þessari tillögu að til voru lög um Þróunarsjóð sjávarútvegsins og hvað í þeim stóð. Hitt liggur alveg ljóst fyrir að þarna lýsti Alþingi þeim vilja sínum að fjármögnun skyldi m.a. að hluta til vera frá Þróunarsjóði sjávarútvegsins. Þessi tillaga sem samþykkt var ofan í lögin um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, þ.e. þessi þingsályktun þó að hún hafi ekki lagagildi, er skýr vilji Alþingis um það að hluti af þessum fjármunum skuli fara í þetta verkefni. Ég mælist eindregið til þess að menn skoði það í fyllstu alvöru hvernig það verkefni má fram ganga því ég kem ekki auga á, miðað við þá peninga sem við höfum látið í varðveislu skipa á undanförnum árum, hvernig við ætlum svo vel fari að takast á við stórverkefni í varðveislu sögulegra minja eins og Kútter Sigurfara á Byggðasafninu á Akranesi sem er eina eintak sinnar tegundar sem við eigum. Ég held að því væri vel varið.