131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:50]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að okkur hæstv. sjávarútvegsráðherra greini ekki á um áhuga á að standa að hafrannsóknum hér við land. Ég tek undir þau sjónarmið sem komið hafa fram, bæði í máli hans og annarra í dag að það er auðvitað mikil þörf á því að halda úti öflugum hafrannsóknum, sérstaklega á þeim tímum sem við upplifum nú þegar sjávarhiti er að breytast verulega í hafinu umhverfis Ísland og við sjáum öðruvísi hegðunarmunstur hjá fiskstofnum og fisktegundum en við höfum kannski séð lengi áður og jafnvel aldrei upplifað með þeim hætti að vera að rannsaka þær undir þessum kringumstæðum, þ.e. við þær hitabreytingar sem eru að verða í hafinu. Ég geri því ekki lítið úr því að efla þurfi hafrannsóknir og taka vel á í þeim efnum. Það á jafnt við um hafsvæði fjær landinu og innfjarða, en ég tel hins vegar að það sé vel hægt að vinna að þeim verkefnum þó að eitthvert fé úr Þróunarsjóðnum fari í þetta verkefni.