131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:53]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst hæstv. ráðherra vantreysta Alþingi nokkuð þegar ráðherrann talar um fjármagn til Hafrannsóknastofnunar. Nú er Hafrannsóknastofnun á fjárlögum. Hún er A-hluta stofnun, fjárreiður hennar og fjárveitingar eru beint á ábyrgð Alþingis. Það er Alþingis að styrkja og efla rannsóknir á vegum stofnunarinnar sem gert er á fjárlögum á grundvelli beiðna bæði stofnunarinnar og ráðuneytisins. Ég veit ekki betur en það sé líka stefna hæstv. ríkisstjórnar, a.m.k. hefur það oft komið fram í máli hæstv. fjármálaráðherra að ekki eigi að vera með sérmarkaða tekjustofna til A-hluta stofnana á vegum ríkisins, þær eru á beinum fjárlögum, enda stríðir það líka gegn fjárreiðulögum að svo sé gert. Þannig að við sem viljum auknar hafrannsóknir viljum að sjálfsögðu láta það fara sinn eðlilega farveg í gegnum fjárlögin eins og lög kveða á um.

Hins vegar þegar verið er að ræða um einskiptisráðstöfun á fé eins og hér er verið að tala um þá er mjög eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort þeirri úthlutun geti ekki verið varið til einhverra verkefna sem eiga sér þá líka afmarkaðan sess í tíma. Það er það sem verið er að ræða hér. Ég held að hæstv. ráðherra ætti frekar að taka undir með okkur (Forseti hringir.) um að hvetja Alþingi til að standa betur að fjárveitingum til hafrannsókna eins og því ber.