131. löggjafarþing — 68. fundur,  8. feb. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:55]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst það mjög einkennilegt sjónarmið að það skipti einhverju máli hvaðan fjármunirnir koma hvort þeir nýtist vel til hafrannsókna eða ekki. Ég get ekki séð að það sé neitt í fjárreiðulögunum sem bannar það að Alþingi ráðstafi fjármunum á þennan hátt sem Alþingi hefur gert. Ég get ekki séð neitt því til fyrirstöðu í fjárreiðulögunum. Sjónarmið hv. þingmanns er mjög einkennilegt. Það er svona eins og að fá upp í hendurnar fjármuni og það eigi að nota þá hér og þar og alls staðar, tvisvar, þrisvar, fjórum sinnum, en gleyma svo stóru verkefnunum sem búið er að tala um við önnur tækifæri. Var þá allt talið um að auka hafrannsóknir bara einhvers konar skrum? Þegar svo einhverjir peningar koma fyllast augun einhverri glýju um að menn geti deilt þeim út og suður í eitthvað annað sem þá er orðið miklu meira spennandi en hafrannsóknirnar sem menn töluðu einu sinni um. Þær eru bara upphrópun þegar það passar en síðan þegar eitthvað annað kemur þá er það miklu sniðugra. Ég verð að segja það, frú forseti, að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með málflutning hv. þingmanns í þessu efni.