131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Fiskmarkaðir.

486. mál
[12:01]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Á fundum og ferðalagi sjávarútvegsnefndar um Suðurnes nýlega heimsóttum við meðal annars Fiskmarkað Suðurnesja. Við fórum í höfuðstöðvar Íslandsmarkaðar í Keflavík og áttum ágætisspjall við forráðamenn þar. Fram kom mikil óánægja þeirra með það að reglur um fiskmarkaði á Íslandi hafa ekki verið endurskoðaðar og að ekki séu komin ný lög.

Þau lög sem unnið er eftir núna, virðulegi forseti, eru frá desember 1989, tóku gildi 1. janúar 1990 og heita Lög um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla. Það má eiginlega segja að þau hafi verið hálfgerð bráðabirgðalög utan um þá starfsemi sem þá var að hefjast. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og mikill fiskur verið seldur þannig að margt hefur breyst í þessu sem betur fer. Það var sem sagt óánægja með að ekki væri kominn nýr samræmdur lagagrundvöllur og nýjar reglur um þetta og menn töldu lagaumhverfið afar ófullkomið eins og það er núna. Þeir óska eftir því að fá að stunda starfsemi sína án hafta ef svo má að orði komast og gátu þess jafnframt að því hefði verið marglofað að endurskoða þessi lög.

Þeir hafa líka útlistað hvað þurfi að hafa til hliðsjónar við þá endurskoðun og við þá lagasmíð ef af yrði, t.d. um samkeppnisstöðu markaða, þ.e. að búa verður fiskmörkuðum það lagaumhverfi að þeir geti starfað án óeðlilegrar samkeppni, samanber bein viðskipti blönduð kvótaviðskiptum eins og þarna kom fram, mismunun hafnargjalda, mismunun á kröfum til innlendra og erlendra markaða sem selja íslenskan fisk, mismun í uppgjörum til sjómanna eftir því hvar aflinn er seldur og margt fleira eins og t.d. líka mismun á vigtarreglum.

Að mínu mati er afar brýnt að setja þessari mikilvægu starfsemi föst lög og fastar reglur. Þess vegna hef ég lagt fram eftirfarandi fyrirspurn á þskj. 742 til hæstv. sjávarútvegsráðherra:

Hefur ráðherra áform um að taka lög og reglur um fiskmarkaði til endurskoðunar?

Svo má bæta við spurningu: Ef svo er, hvenær er þá ætlunin að leggja slíkt lagafrumvarp fyrir hið háa Alþingis?