131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Fiskmarkaðir.

486. mál
[12:04]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Því er til að svara að lög um uppboðsmarkaði eru í endurskoðun og ég geri ráð fyrir því að henni ljúki tiltölulega fljótlega þannig að hægt verði að leggja fram frumvarp um það á þessu þingi. Síðan er það auðvitað undir hv. sjávarútvegsnefnd komið hvort hún afgreiðir málið eður ei en ég stefni að því að málið verði í því formi að mögulegt verði að afgreiða það á þessu þingi og komi reyndar nægilega snemma til að það sé mögulegt líka.

Þetta er ekki að mínu mati sérstaklega flókið mál hvað varðar lagasetninguna. Hins vegar tengist það ýmsum öðrum málum í sjávarútvegi, m.a. reglum um löndun og vigtun afla sem hafa verið í endurskoðun undanfarin missiri. Þær hugmyndir sem þar hafa legið til grundvallar hafa komið fram á heimasíðu ráðuneytisins. Ég vonast til að það geti staðist á að endurskoðuð lög um uppboðsmarkaði verði tilbúin, að endurskoðun reglugerðarinnar verði lokið og þá verði hægt að ganga svo til samtímis frá þeim reglugerðum sem síðan þyrftu að fylgja nýjum lögum um uppboðsmarkaði og reglugerðunum um vigtun og löndun sjávarafla.