131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Fiskmarkaðir.

486. mál
[12:06]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég fagna frumvarpi til laga um fiskmarkaði, endurskoðuðum lögum, ef af verður. Það er svo sannarlega orðið tímabært. Þau lög sem þeir hafa starfað eftir hingað til, eins og komið hefur fram, voru hrein bráðabirgðalög eða tilraunalög um að hleypa þessari starfsemi af stokkunum. Að því er mér skilst er starfsleyfi fiskmarkaða enn veitt til eins árs í senn. Það er fullkomlega óviðunandi starfsgrundvöllur og ýmislegt í laga- og reglugerðarumhverfi þessarar starfsemi er þannig að það er eins og þarna vinni óskynsamir menn sem séu stöðugt að reyna að fara í kringum lögin. Umgjörðin hefur verið alveg fáránleg þannig að ég treysti því að hæstv. ráðherra komi sem allra fyrst með nýtt frumvarp um fiskmarkaði þar sem tekið verður á þessum málum.