131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Fiskmarkaðir.

486. mál
[12:07]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það var gott að heyra hjá hæstv. ráðherra að til standi að endurskoða þessi lög núna. Lengi er búið að tala um nauðsyn þess að þau verði tekin til endurskoðunar því að þau hafa hálfpartinn staðið þróun og störfum fiskmarkaðanna fyrir þrifum. Við sem þekkjum þetta frá gamalli tíð vitum að á sínum tíma þegar fiskmarkaðirnir voru settir á laggirnar voru nánast settir punktar niður á minnisblað sem síðan enduðu sem lög sem eru núna alls ekki nægjanlega ítarleg eða yfirgripsmikil fyrir þessa starfsemi.

Hæstv. ráðherra sagði að hann vonaðist til þess að hugsanlega yrði hægt að leggja fram frumvarp á þessu þingi. Ég vona að hæstv. ráðherra segi okkur það kannski í seinni ræðu sinni að hann hafi meint að það yrði örugglega lagt fram á þessu þingi. Það er komin full ástæða til að spýta í lófana og setja fram lagafrumvarp núna. Ég á enga von á því að sjávarútvegsnefnd taki langan tíma í fara yfir það og afgreiða út úr nefnd.