131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Fiskmarkaðir.

486. mál
[12:08]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem í ræðustól til að lýsa ánægju minni með það að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi tjáð okkur að þessi lög séu á leiðinni og ég vona að þau komi sem allra fyrst. Þeir sem standa að fiskmörkuðum hér á landi hafa lengi lýst eftir nýjum lögum og þeir hafa líka lýst óþolinmæði sinni og óánægju með það að þessi lagabót, sem við vonum að verði, sé ekki komin.

Það er oft og tíðum nánast ekki einleikið hversu langan tíma það tekur fyrir framkvæmdarvaldið, þ.e. ráðuneytin, að skila af sér svona lagaumbótum. Ég man eftir því að hæstv. landbúnaðarráðherra upplýsti þingið fyrir rúmu ári að verið væri að endurskoða lög um lax- og silungsveiði og enn bólar ekkert á endurbótum á þeim mikla lagabálki, hann sést hvergi í námunda við þingið.

Ég hvet hæstv. sjávarútvegsráðherra til að koma þessum lögum um fiskmarkaði frá sér sem allra fyrst. Þá getur sjávarútvegsnefnd unnið þetta mál vel og vandlega þannig að við gerum ekki enn á ný sömu glappaskot og við höfum verið að gera, þ.e. að afgreiða héðan út af hinu háa Alþingi lög sem síðan reynast vera gölluð.