131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Fiskmarkaðir.

486. mál
[12:10]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Virðulegur forseti. Það er gleðiefni að hæstv. ráðherra sé með í bígerð lög og reglur sem lúta að starfsumhverfi fiskmarkaða í landinu, og þótt fyrr hefði verið. Í þessu samhengi vil ég beina ljósinu að mikilvægi þess að gæðaþátturinn í starfsemi fiskmarkaðanna verði endurskoðaður með það að markmiði að vernda fiskvinnsluna í landinu. Sjálfur hef ég sett mig í samband við fiskvinnsluna og hef út frá þeirri vinnu komist að því hversu mikilvægt og þarft það er að reglubundið gæðaeftirlit komi inn í starfsreglur og umhverfi fiskmarkaðanna.

Það má kasta fram þeirri spurningu hvort fiskmarkaðirnir geti leitað til óháðs aðila, og fiskkaupendur almennt, þegar um gæðavandamál er að ræða við fiskkaup á fiskmörkuðum. Réttur fiskkaupenda í dag er afskaplega lítill þegar fiskur er keyptur óséður á markaði og berst svo í hús, kannski í slæmu ásigkomulagi, bæði er varðar flokkun og gæði almennt. Því er mikil nauðsyn á því að tryggt verði að ákveðið öryggi komist á og þá til fiskvinnslna sem eru að kaupa hráefni á fiskmörkuðum í dag.