131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Íslenskir fiskkaupendur.

487. mál
[12:21]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum með svar hæstv. ráðherra við fyrirspurn hv. þm. Kristjáns L. Möllers. Ég á erfitt með að trúa því að hæstv. ráðherra skuli ekki telja eðlilegt að íslenskir fiskkaupendur standi jafnfætis a.m.k. erlendum fiskkaupendum við að bjóða í fisk sem veiddur er úr sameiginlegri auðlind okkar.

Ef ástæðan er sú að verðið fyrir óunninn fisk erlendis er hærra en á innlendum fiskmörkuðum þá væri afskaplega auðvelt fyrir eigendur aflans, ef við getum kallað þá það, að bjóða í fiskinn hér heima, flytja hann út og hagnast á því háa verði sem væri á erlendum fiskmarkaði. Getur verið að mismunandi vigtarreglur, yfirvigt á erlendum mörkuðum, hafi eitthvað með þetta að gera? Það vita allir sem til þekkja að þegar fiskkaupendur erlendis kaupa eitt kíló þá fá þeir ekki eitt kíló heldur 1,1 eða 1,2 kg. Þar með gengur náttúrlega ekki eins á kvótann með því að selja fiskinn erlendis þótt vigtarálag sé á kvótanum.

Ég skora á hæstv. ráðherra að endurskoða afstöðu sína því að ég trúi ekki að hún geti staðist til framtíðar.