131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Íslenskir fiskkaupendur.

487. mál
[12:22]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er full ástæða til að vera vonsvikinn yfir undirtektum hæstv. sjávarútvegsráðherra. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að hann skilji ekki málið. Til staðar er gríðarlega mikil tækni hjá innlendum fiskmörkuðum þannig að hægt er að vera staddur annars staðar í Evrópu og gera tilboð í samkeppni við innlenda aðila hér. Þarna er verið að markaðssetja íslenska auðlind og því er eðlilegt að hún komi hér á markað.

Það skyldi þó ekki vera að lagaumgjörð íslenskra fiskmarkaða, eins og hæstv. ráðherra ýjaði að, sé með þeim hætti að þeir séu ekki samkeppnishæfir við erlenda markaði varðandi t.d., eins og minnst var á áður, vigtun og mat á gæðum aflans. Þá á náttúrlega að laga það. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann taki það ekki með í reikninginn við endurskoðun á lögum um fiskmarkaði, að það verði ekki samkeppnishindrandi.