131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Íslenskir fiskkaupendur.

487. mál
[12:29]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson sagðist vilja að íslenskir fiskkaupendur stæðu jafnfætis erlendum fiskkaupendum. Íslenskir fiskkaupendur standa betur en erlendis fiskkaupendur vegna þess að þeir hafa nálægðina. Þeir hafa að auki upplýsingarnar og síðan er útflutningsálagið þeim í vil. Það ætti líka að vega upp á móti hugsanlegum mismun á færslum eða vigtun en það er hins vegar atriði sem Fiskistofa hefur eftirlit með að sé í lagi.

Hv. þingmenn tala um að markaðsfyrirkomulagið eigi að ríkja í þessu tilfelli. Þetta er opinn og frjáls markaður sem hér er um að ræða. En það virðist eins og hv. þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, ég hélt reyndar síður að það ætti við frjálslynda en það getur þó líka verið, telji að hinn frjálsi markaður sé alltaf skipulagður uppboðsmarkaður. Það er bara ekki þannig. Hinn frjálsi markaður er opinn og allir geta tekið þátt í honum á ýmsa vegu. Niðurstaðan af þessu fyrirkomulagi, þessum breytingum sem við gerðum, varð ekki eins og ég vonaðist eftir. Það var einfaldlega vegna þess að innlendu fiskkaupendurnir hafa ekki verið tilbúnir til að greiða eins gott verð fyrir fiskinn og fæst fyrir hann á erlendum mörkuðum í þeim tilfellum sem fiskurinn er fluttur út. Það fæst mjög gott verð og stundum hámarksverð fyrir ferskan fisk, óunninn í roði. Það er hágæðavara á háu verði og til þess að fyrir hann fáist rétt verð þarf að flytja hann út í því formi en ekki unninn. Þannig virkar hinn frjálsi markaður. Hann verðleggur og það er hann sem ræður því hvernig við deilum hráefni á markaðinn.