131. löggjafarþing — 69. fundur,  9. feb. 2005.

Reiknilíkan fyrir rekstur sýslumannsembætta.

305. mál
[12:34]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda var árið 1999 skipuð nefnd um gerð reiknilíkans fyrir rekstur sýslumannsembætta. Samkvæmt erindisbréfi nefndarinnar var markmið starfs hennar að stuðla að sem bestri nýtingu fjármuna til rekstrar og þjónustu sýslumannsembætta og kerfisbundinni skiptingu fjármuna milli embætta. Einnig var stefnt að því að gera kostnað einstakra embætta samanburðarhæfan og að einingarkostnaður yrði sambærilegur hjá embættunum að teknu tilliti til mismunandi aðstæðna.

Nefndin hóf störf sín með því að afla upplýsinga hjá öðrum Norðurlöndum um hvort sambærilegt verk hefði verið unnið þar. Af þeim svörum sem bárust reyndist svo ekki vera. Nefndin kynnti sér líka reiknilíkan í rekstri framhaldsskóla og háskóla hér á landi. Þá var aflað upplýsinga um einstaka rekstrarþætti hjá sýslumannsembættum.

Í starfi nefndarinnar kom fram að gerð reiknilíkans sem mælir á raunsæjan hátt rekstrarkostnað sýslumannsembætta reyndist vera mun flóknara en talið var í upphafi og tafði það störf nefndarinnar. Má fyrst og fremst rekja það til löggæsluhlutans, eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, í starfi sýslumanna, en vaktafyrirkomulag löggæslunnar í landinu er með mjög mismunandi hætti eftir fjölda lögreglumanna, hvort rekin eru eitt eða fleiri útibú, stærð umdæmisins í ferkílómetrum talið o.fl.

Vandinn sem nefndin stóð frammi fyrir var í megindráttum sá að finna jafnvægið á milli þess að einfalda líkanið ekki um of þannig að það mældi ekki á raunhæfan hátt kostnað við rekstur embættanna og hins vegar að gera líkanið ekki svo flókið að það yrði ekki handhægt vinnutæki. Sú millileið hefur enn ekki fundist þótt vinna við sjálft líkanið sé langt komin.

Fyrir um ári setti ég á laggirnar verkefnisstjórn um nýskipan lögreglumála. Í skipunarbréfi var henni falið að horfa til vinnu reiknilíkansnefndarinnar en í skipunarbréfinu sagði að frekari vinna við það hlyti að taka mið af þeim markmiðum sem nú væru að mótast um skipan löggæslu og innra starf lögreglunnar. Það er mat mitt, eins og fram kemur í skipunarbréfinu, að vel ígrundað og sanngjarnt reiknilíkan um alla meginþætti í starfi sýslumanna og lögreglu sé liður í því að væntanlegar breytingar verði árangursríkar auk þess sem líkan af þessu tagi geti verið ómetanlegt hjálpartæki við framkvæmd breytinganna.

Verkefnisstjórn um nýskipan lögreglumála skilaði fyrir stuttu skýrslu sinni og er þar vikið að þessum atriðum. Þar kemur fram að verkefnisstjórnin telur skynsamlegt að leitað verði leiða til að ljúka vinnu við reiknilíkanið. Að mati hennar ættu lykilbreyturnar að vera stærð umdæmis og fjöldi íbúa, annars vegar í þéttbýli og hins vegar í dreifbýli, í viðkomandi umdæmi auk þess sem horfa þurfi til upplýsinga um afbrot og tegundir þeirra. Leggur verkefnisstjórnin til að ríkislögreglustjóra verði falið að ljúka vinnu við gerð reiknilíkansins og gæti líkanið orðið mælikvarði á löggæslustörf, mikilvægt tæki við árangursmælingar á sviði löggæslu og við stýringu löggæslu.

Ég hef ekki mótað afstöðu mína til tillagna verkefnisstjórnarinnar og þær tillögur eru nú til umræðu á vettvangi lögreglunnar og á meðal sýslumanna, en ég er sammála því mati verkefnisstjórnarinnar að mikilvægt sé að taka upp reiknilíkan af þessum toga og mun beita mér fyrir því að það verði gert og að sjálfsögðu kemur að því að málið verði rætt frekar á Alþingi.